Þetta er mjög flókin staða

Willum Þór Þórsson ræðir við blaðamenn.
Willum Þór Þórsson ræðir við blaðamenn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er alveg ótrúleg saga,“ sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR, í samtali við mbl.is eftir að KR tryggði sér þriðja sæti Pepsi-deildar karla og þar með þátttökurétt í Evrópukeppni eftir 3:0-sigur á Fylki í lokaumferð deildarinnar í dag.

KR þurfti á sigri að halda og treysta á önnur úrslit til þess að tryggja sér Evrópusæti og það gekk eftir.

Sjá frétt mbl.is: KR náði Evr­óp­u­sæti og felldi Fylki

„Við áttum fullt í fangi með það að einbeita okkur að því að vinna þennan leik, við lögðum upp með það og svo kæmi annað til okkar ef það gerðist. Svo gerðist það og það er stórkostlegur bónus fyrir félagið og strákana,“ sagði Willum, en viðsnúningur KR hefur verið hreint ótrúlegur undir hans stjórn.

Unnum að þessu, allir sem einn

Willum tók við í lok júnímánaðar þegar KR var með 9 stig. Und­ir stjórn Will­ums fékk liðið 29 stig af 39 mögu­leg­um og tryggði sér Evr­óp­u­sæti. Hreint magnaður viðsnún­ing­ur.En hvað breyttist?

„Fyrir tíu vikum vorum við einmitt að fara í leik við Fylki sem snerist um það hvort liðið yrði í fallsæti við hliðina á Þrótti. Við byrjuðum bara þar, horfðumst í augu við stöðuna. Það var tvennt sem við lögðum upp með; að horfa upp töfluna og koma okkur af þessu fallsvæði.

Við áttum mjög góðan sprett í Evrópukeppninni og gátum notað það til þess að ná áttum. Svo er það þessi ótrúlegi metnaður sem er alltaf hjá KR, hann hjálpar og drífur allt og alla áfram. Svo þetta gamla góða; það voru allir sem einn að vinna að þessu og þegar uppi er staðið er það það sem skiptir máli,“ sagði Willum.

Willum Þór Þórsson
Willum Þór Þórsson mbl.is/Eggert Jóhannesson

Engar viðræður átt sér stað

Willum samdi við KR um að klára tímabilið með liðið en framhaldið hefur ekki verið rætt. Hann situr á þingi fyrir Framsóknarflokkinn og skipar 2. sæti lista flokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar. Hvað með framhald hans í þjálfun, mun það ráðast af því hvort hann komist inn á þing eða ekki?

„Ég bara veit það ekki. Þetta er mjög flókin staða. Ég eiginlega bara datt inn í þetta verkefni og það var þegjandi samkomulag um að við myndum vinna saman hér allir sem einn og vera svo ekkert að ræða framhaldið frekar. Það hafa engar viðræður átt sér stað og við höfum bara einbeitt okkur að því að klára þetta tímabil.

Hér er ég bara kominn á þennan tímapunkt, þegar kemur ótrúleg gleði hellist yfir mann við að ná árangri í íþróttum. Það eru mjög sterkar tilfinningar og því er mjög óvarlegt að vera með einhverjar yfirlýsingar hér og nú,“ sagði Willum.

Væri synd að kasta þingreynslunni frá sér

En mun þingmennskan trompa þjálfunina ef þú verður kosinn á þing?

„Fótbolti er búinn að vera hluti af mínu lífi frá því ég var fimm ára og var innritaður í KR. Ég held ég sé ekki í því jafnvægi gagnvart hvorki KR né ástríðu minni fyrir fótbolta til þess að svara því hér og nú.

Þetta er flókin staða, ég er auðvitað í öðru sæti og hef haft mjög gaman að því að starfa sem þingmaður. Mér finnst synd að kasta þeirri reynslu frá eftir þrjú ár á þessu kjörtímabili og nýta hana ekki áfram,“ sagði Willum, sem fer nú á fullt í kosningabaráttu með Framsókn fyrir komandi kosningar.

Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, á Alþingi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þjálfun og þingmennska fer ekki saman til lengdar

Willum segir að það sé útséð með það að hann muni ekki halda áfram sem þjálfari samhliða þingstörfum verði hann kosinn til áframhaldandi þingmennsku.

„Það var fyrirséð að þetta væri bara tímabundið. Ég hef verið á fleygiferð á milli þings og KR. Ég hef hlaupið á æfingar og komið aftur til þess að klára mína ábyrgð á þinginu. Það hefur gengið, en þetta gengur ekki saman nema svona tímabundið,“ sagði Willum.

Flokksþing Framsóknarflokksins er haldið um helgina og mun Willum vera þar viðstaddur á morgun. Þar er meðal annars kosið um formann flokksins og sjálfur hefur hann lýst yfir stuðningi við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra í embætti, en hann er þar gegn Sigmundi Davíð Gunnarssyni sitjandi formanni.

„Ég leyni því ekki að þær kringumstæður sem eru uppi í dag þá væri Sigurður Ingi vænlegri kostur. Kringumstæður skapa leiðtoga, og Sigmundur Davíð var réttur maður á réttum tíma fyrir síðustu kosningar,“ sagði Willum.

En ef Sigurður Ingi tapar formannskjörinu, muntu endurskoða ákvörðun þína um að taka sæti á lista flokksins?

„Ég er ekki kominn svo langt og hef reynt að halda mér alveg í þessu verkefni til þess að klára það. Svo hef ég reynt að sinna minni skyldu sem þingmaður og tek það alvarlega. Ég er auðvitað alinn upp í íþróttunum en hver sem verður formaður þá þarf að styðja hann. Ég hef reynt að ýta öllu svona frá mér til þess að klára þetta verkefni og annað er ekki ljóst,“ sagði Willum Þór Þórsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert