Valsmenn í 5. sæti fjórða árið í röð

Haukur Páll Sigurðsson úr Val og Garðar Gunnlaugsson úr ÍA.
Haukur Páll Sigurðsson úr Val og Garðar Gunnlaugsson úr ÍA. mbl.is/Styrmir Kári

Valsmenn luku Íslandsmótinu í knattspyrnu karla á því að vinna ÍA, 1:0, á Hlíðarenda. Þar með komust þeir upp í 5. sæti deildarinnar með 35 stig, en þar hefur Valur endað síðustu fjórar leiktíðir. Skagamenn misstu Víking R. upp fyrir sig og höfnuðu í 8. sæti með 31 stig.

Í leiknum mættust tveir markahæstu leikmenn Íslandsmótsins í ár en hvorugum þeirra tókst að skora í leiknum. Garðar Gunnlaugsson hlaut því gullskóinn að loknum leiknum en hann skoraði 14 mörk í sumar. Kristinn Freyr Sigurðsson hlaut silfurskóinn með 13 mörk, og var útnefndur besti leikmaður Íslandsmótsins.

Valsmenn voru talsvert sterkari aðilinn í leiknum í dag og sköpuðu sér fullt af færum en það skilaði sér bara í einu marki sem Sigurður Egill Lárusson skoraði á 60. mínútu.

Skagamenn fengu einnig sín færi og Garðar Gunnlaugsson fékk tækifæri til að jafna metin á 65. mínútu úr vítaspyrnu sem varamaðurinn Tryggvi Hrafn Haraldsson krækti í. Anton Ari Einarsson, sem átti frábæran leik í marki Vals, sá hins vegar við honum með glæsilegri markvörslu.

Kristinn Freyr skoraði mark undir lok leiksins en það var dæmt af vegna rangstöðu, og þeir Nikolaj Hansen sluppu tveir gegn tveimur varnarmönnum í uppbótartíma en Hansen reyndi skot sjálfur sem var misheppnað, við litla kátínu Kristins Freys.

Fylgst var með gangi mála í leiknum í textalýsingu hér á mbl.is. Viðtöl koma inn síðar í dag.

Valur 1:0 ÍA opna loka
90. mín. Garðar B. Gunnlaugsson (ÍA) á skalla sem er varinn Laus skalli en litlu munaði að liðsfélagar Garðars kæmu boltanum áfram í markið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert