„Dómararnir ekki með pung“

Hradecky reynir að verjast gegn Kára Árnasyni í leiknum.
Hradecky reynir að verjast gegn Kára Árnasyni í leiknum. mbl.is/Golli

Lukas Hradecky, markvörður finnska landsliðsins í knattspyrnu, var brjálaður eftir 3:2 tap liðsins gegn Íslandi í undankeppni heimsmeistaramótsins í kvöld. Hann lét dómara leiksins heyra það.

Hradecky var afar ósáttur með dómgæsluna en hann vildi meina að það hafi verið brotið á sér í sigurmarkinu, auk þess sem boltinn hafi ekki verið inni. Hann var afar æstur í viðtali sem undirritaður tók við hann en hann vandaði dómurunum ekki kveðjurnar.

„Ég vil fara upp í rútu og öskra. Þetta er óréttlátt og eins og þú heyrðir þá held ég að boltinn hafi ekki farið yfir línuna og í öðru lagi þá átti ég að fá aukaspyrnu. Ég var með báðar hendur á boltanum,“ sagði hann við mbl.is.

„Þeir eru heppnir með dómara. Jújú, þeir börðust vel og ég þurfti að verja nokkra bolta, en þetta átti að fara 2:2 ekki svona ógeðslega ömurlegt mark í endann. Dómararnir höfðu ekki pung í að dæma á þetta.“

„Þetta eru eðlileg viðbrögð. Ég vona að ég sjái þessa dómara aldrei aftur, kannski mun ég róast niður á endanum, en ég skil bara ekki hvernig þetta gerðist og af hverju allt er á móti okkur í dómgæslu.“

„Fyrsta markið voru mín mistök og ég tek það á mér en það hefði verið þægilegt að taka sigurinn í dag. Þetta var heppni hjá Íslandi í dag, það verður að segjast.“

„Þetta eyðileggur liðir. Maður berst í 95 mínútur og fær þetta óréttlæti í andlitið. Vonandi náum við að grafa okkur upp úr þessu og ná stigum á sunnudaginn. Það verður þó erfitt að kyngja þessu tapi,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert