EM hafði umtalsverð áhrif

Besta aðsóknin var í Kaplakrika á heimaleikjum FH þriðja árið …
Besta aðsóknin var í Kaplakrika á heimaleikjum FH þriðja árið í röð. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Aðsókn á leiki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu dróst talsvert saman á milli ára og er árið 2016 það næstlakasta hvað áhorfendatölur varðar í úrvalsdeild karla frá því liðum þar var fjölgað úr tíu í tólf árið 2008.

Alls mætti 128.741 áhorfandi á leikina 132 í deildinni í ár, en það gerir 975 manns að meðaltali á leik. Fækkunin nemur 132 áhorfendum á leik frá 2015, þegar meðalaðsóknin var 1.107 manns á leik í deildinni.

Þó var aðsóknin nokkuð betri en á lakasta árinu í seinni tíð, 2014, þegar 923 mættu að meðaltali á hvern leik.

Besta aðsóknin í tólf liða deildinni var árið 2010, en þá voru áhorfendur að jafnaði 1.205 áhorfendur á leik. Frá og með árinu 2001 hefur meðalaðsókn í deildinni aldrei farið undir 900 manns.

FH var með bestu aðsóknina þriðja árið í röð; 1.541 áhorfandi kom að meðaltali á hvern heimaleik Íslandsmeistaranna, sem þó töpuðu um 380 manns á leik frá árinu 2015.

Breiðablik var í fyrsta skipti með næstbestu aðsóknina, en 1.203 áhorfendur komu að meðaltali á leiki Kópavogsliðsins, sem þó tapaði um 170 áhorfendum á leik frá 2015.

KR dettur niður í þriðja sætið með 1.163 áhorfendur á leik, tapaði um 260 áhorfendum á leik frá 2015. Þetta er í fyrsta skipti frá árinu 1990 sem KR er ekki í öðru tveggja efstu sætunum yfir flesta áhorfendur á heimaleikjum í efstu deild karla.

Sjá allt um aðsóknina í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert