Flugfreyjureynslan nýtist vel í Kína

Dóra María Lárusdóttir í landsleik.
Dóra María Lárusdóttir í landsleik. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Dóra María Lárusdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, er ánægð með aðstæður í Chongquing-héraði í Kína þar sem íslenska kvennalandsliðið tekur þátt í fjögurra þjóða móti á næstu dögum.

„Þetta er mjög flottur völlur, grasið er kannski svolítið ólíkt því sem við eigum að venjast en við verðum búnar að venjast því fyrir fyrsta leik eftir tvo daga,“ sagði Dóra María í viðtali við KSÍ á keppnisvellinum á staðnum. Hún segir að umgjörðin sé jafnvel betri en hún átti von á.

„Þetta hefur verið framar vonum held ég. Við vissum ekki alveg við hverju ætti að búast enda heyrt misjafnar sögur, en hótelið er bara mjög fínt og það gengur vel að nærast og svona,“ sagði Dóra María.

Tímamismunurinn miðað við Ísland eru átta tímar. Hvernig hefur gengið að snúa sólarhringnum svona nánast alveg við?

„Það er eitthvað misjafnt. Ég hef aldrei átt í vandræðum með svefn svo ég næ mér alveg á rétt strik, en sumar eru í einhverjum vandræðum,“ sagði Dóra, en mun það há okkur í mótinu og í fyrsta leik á móti Kína á fimmtudag?

„Vonandi ekki. Við komum flestar nokkuð snemma og höfum fengið fjóra daga til að jafna okkur. Svo bý ég sjálf yfir flugfreyjureynslunni, er vön því að vera að ferðast fram og til baka til Ameríku svo ég bý af góðri reynslu þar,“ sagði Dóra María Lárusdóttir við KSÍ.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert