„Var orðinn svolítið pirraður“

Veigar Páll Gunnarsson í treyju FH í dag.
Veigar Páll Gunnarsson í treyju FH í dag. mbl.is/Andri Yrkill

„Leiðir mínar og Stjörnunnar skildi og FH sýndi mér mikinn áhuga. Þetta var auðvelt val,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson í samtali við mbl.is, skömmu eftir að hafa skrifað undir eins árs samning við Íslandsmeistara FH í knattspyrnu. Hann kemur til félagsins frá Stjörnunni.

Sjá frétt mbl.is: Veigar Páll semur við FH-inga

„FH var eitt af þeim liðum sem hafði áhuga á mér og það gefur auga leið að þú segir ekki nei við FH. Það er bara þannig,“ sagði Veigar Páll, en hann segir vissulega erfitt að þurfa að fara frá Stjörnunni.

„Já, að sjálfsögðu. Það er mitt uppeldisfélag og ég hef verið Stjörnumaður allt mitt líf og allt það. En þetta gerðist bara, við ákváðum að skilja og þegar FH kom og sýndi áhuga þá var bara eitt svar og það er já,“ sagði Veigar Páll.

Hann er orðinn 36 ára gamall og aðspurður tók hann undir það að hann horfi á þetta sem eins konar lokaáskorun á sínum ferli.

„Já, ég horfi svolítið á þetta þannig. Engu að síður finnst mér ég eiga alla vega eitt gott ár eftir. Þetta snýst um að æfa vel á undirbúningstímabilinu og vera í góðu standi. Þá er ég sannfærður um að ég eigi alla vega eitt gott ár eftir og að vera hér í FH vil ég gera allt til þess að liðið vinni titilinn aftur,“ sagði Veigar Páll.

Veigar Páll skrifar undir samninginn við FH. Með honum á …
Veigar Páll skrifar undir samninginn við FH. Með honum á myndinni eru Jón Rúnar Halldórsson, formaður knattspyrnudeildar FH, og Ólafur Páll Snorrason aðstoðarþjálfari. mbl.is/Andri Yrkill

Fannst ég standa mig nógu vel

Veigar Páll tók þátt í sautján leikjum með Stjörnunni í sumar og skoraði fimm mörk. Hann var hins vegar mikið til á bekknum og hann viðurkennir að það hafi verið orðið pirrandi.

„Já, mér fannst það. Ég viðurkenni að ég var svolítið pirraður og sérstaklega þar sem ég náði að æfa mjög vel á undirbúningstímabilinu og hef sjaldan verið í betra formi í byrjun tímabils. En deildin er þannig að ef þú ert ekki í liði, hvernig áttu að halda þér í formi? Hægt og rólega var þetta því orðið svolítið erfiðara, en engu að síður þá fannst mér ég standa mig nógu vel í þessum síðustu leikjum með Stjörnunni,“ sagði Veigar.

En telur hann þá að það sé eitthvað auðveldara að brjótast inn í lið Íslandsmeistara FH?

„Nei, engan veginn. En ég veit að þetta þjálfarateymi, Heimir [Guðjónsson] og Óli [Ólafur Páll Snorrason], hafa mikla trú á mér sem fótboltamanni og vita hvað ég get þrátt fyrir að ég muni kannski ekki spila alla leiki. Ég hugsa að ég geti það ekki einu sinni í dag. En ég er sannfærður um að ég verði notaður á réttari hátt hérna,“ sagði Veigar.

Ekki að sanna neitt fyrir Stjörnunni

Viltu þá sanna fyrir Rúnari [Páli Sigmundssyni, þjálfara Stjörnunnar], að hann hafi gert mistök með þig?

„Ég er alls ekki að gera þetta til þess að sanna neitt fyrir honum, heldur fyrir sjálfan mig. Mig langar að sýna það,“ sagði Veigar Páll.

Auk þess að spila með FH mun hann þjálfa í akademíu félagsins. Er það leið sem hann hugsar sér að fara eftir að knattspyrnuferlinum lýkur, að leiðast út í þjálfun?

„Já, það hefur oft loðað við menn að fara út í þjálfun eftir að ferlinum lýkur. Mér finnst frábært að fá tækifærið að þjálfa í akademíunni hjá FH. Ég byrja alla vega á því og sé svo til hvert það leiðir. Draumurinn er náttúrulega að vera þjálfari í meistaraflokki svo ég fæ reynslu út af þessu alla vega,“ sagði Veigar Páll Gunnarsson við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert