„Einhver ógeðsleg óheppni“

Finnur Ingi Stefánsson.
Finnur Ingi Stefánsson. mbl.is/Golli

„Þetta er svekkjandi, maður.“ Já, fyrstu orð Finns Inga Stefánssonar þegar blaðamaður mbl.is settist hjá honum eftir ótrúlegan 29:28-sigur Selfoss á Gróttu í Olís-deild karla í handknattleik í kvöld áttu vel við. Finnur, sem hafði skorað úr öllum átta vítum sínum í leiknum, klúðraði hins vegar því níunda þegar leiktíminn var runninn út og Selfoss fagnaði hádramatískum sigri.

Sjá frétt mbl.is: Fjórða tap Gróttu í röð í ótrúlegri dramatík

„Fylgir þetta ekki bara? Ég get eiginlega ekkert sagt, þetta var bara víti í slána skilurðu. Hann var ekkert nálægt því að verja eða neitt þannig. Ég veit ekki hvort þetta skrifast bara á einhverja ógeðslega óheppni. En þetta er alveg glatað,“ sagði Finnur Ingi og sagði að taugarnar hefðu ekkert sagt til sín í þessu níunda og örlagaríka vítakasti.

„Nei, ekkert þannig. Þetta var bara eins og hvert annað víti. Hann var ekki nálægt því að verja og ég held þetta hafi ekki verið illa tekið víti. Bara sláin út, sláin inn eins og gengur. Eins ógeðslegt og það er nú,“ sagði Finnur hreinskilinn.

Þetta var slagur og Selfoss spilar bara svoleiðis. Þú verður að vera tilbúinn að mæta því, eitthvað sem við vorum ekki tilbúnir til í fyrri hálfleik. Við grófum okkur helvíti djúpa holu þá, sjö mörkum undir, en komum flottir til baka þó við höfum aldrei náð þeim. Að fá 29 mörk á sig er alltof mikið og vörnin var ekki góð,“ sagði Finnur.

Þetta var fjórða tap Gróttu í röð í deildinni. Hvað hefur vantað upp á?

„Það er kannski misjafnt á milli leikja. Núna vantar bara einhvern herslumunn eins og síðast, en leikirnir þar á undan voru bara ekki nógu vel spilaðir. Það er ekki bara eitthvað eitt sem er að klikka hjá okkur, heilt yfir vantar eitthvað aðeins meira til þess að ná hagstæðum úrslitum,“ sagði Finnur, og segir að nú þurfi bara að setja undir sig hausinn enn á ný og halda áfram.

„Það þýðir ekkert annað. Við erum ekki dottnir í eitthvað volæði – það er október sko. Við erum alveg slakir,“ sagði Finnur Ingi Stefánsson við mbl.is í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert