EM-fiðringurinn mættur

Dagný Brynjarsdóttir í Chongqing.
Dagný Brynjarsdóttir í Chongqing. Ljósmynd/KSÍ

„Undirbúningurinn hefur gengið vel. Síðustu leikmenn eru komnir til okkar svo við gátum í fyrsta sinn æft allar saman í dag [í gær]. Við erum því flestar búnar að jafna okkur á ferðalaginu og erum svona að venjast lífinu í Kína,“ sagði Dagný Brynjarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ísland mætir liði Kínverja í dag í fyrsta leik á fjögurra þjóða móti sem fram fer í Chongqing-héraði þar í landi.

Mótið er fyrsta skrefið í undirbúningi fyrir lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi næsta sumar. Dagný sagði að EM-fiðringurinn væri farinn að gera vart við sig og ferð eins og þessi myndi gefa hópnum mikið.

„Já, algjörlega. Við verðum alltaf bara nánari í hverri ferð, við erum mjög góðar vinkonur og það er alltaf mjög góður andi í hópnum. Það er alveg sama hvar við erum að spila, það er alltaf skemmtilegast að koma saman með landsliðinu. Nú erum við að stefna að því að vera upp á okkar besta á EM bæði sem einstaklingar og lið. Það er langt í EM en tíminn er svo fljótur að líða að við reynum að nýta hverja einustu viku.“

Kína er vaxandi þjóð í kvennaknattspyrnunni og er í 13. sæti heimslistans. Dagný áréttaði að liðið væri ekki skipað litlum og snöggum leikmönnum eins og einhverjir hefðu eflaust búist við.

„Þær eru það nefnilega ekki. Ég veit til dæmis að markvörðurinn er stærri en ég, svo að hún er stór,“ sagði Dagný og hló. „Kína er með hávaxið lið og þær eru jafnframt sterkar, tæknilega góðar og skipulagðar,“ sagði Dagný, en áherslan yrði þó fyrst og fremst á eigin frammistöðu. „Þetta er bara enn eitt góða liðið sem við mætum og ég held að við hugsum aðallega um okkur sjálfar.“

Sjá allt viðtalið við Dagnýju í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert