Kínverjar tóku víkingaklappið fyrir íslenska liðið

Freyr Alexandersson á góðri stundu með landsliðinu.
Freyr Alexandersson á góðri stundu með landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson, landsliðsþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, var ánægður með hvernig íslenska liðið tókst á við verkefnið gegn Kína í 2:2 jafntefli þjóðanna í dag. Um var að ræða fyrsta leikinn á fjögurra þjóða móti þar í landi.

Sjá frétt mbl.is: Katrín tryggði jafntefli gegn Kína

Freyr stillti upp nýju leikkerfi, 3-5-2, og er ánægður með hvernig til tókst og þá sérstaklega þar sem undirbúningurinn var stuttur. „Það var gaman að sjá að styrkleikar kerfisins sýndu sig, bæði með góðum skyndisóknum og svo að ná að verjast fyrirgjöfum vel með marga leikmenn inni í teignum,“ sagði Freyr við mbl.is í dag, en hann náði aðeins að æfa kerfið almennilega á tveimur æfingum.

Sjá frétt mbl.is: „Alls ekki létt að spila þennan leik“

Freyr segir að öll umgjörð í Kína sé til mikillar fyrirmyndar og vel sé staðið á málum. Um fimmtán þúsund manns voru á leiknum í dag og býst Freyr alveg við því að stór hópur muni fylgja íslenska liðinu þrátt fyrir að heimakonur séu helsta aðdráttarafl áhorfenda.

„Kínversku áhorfendurnir eru hrifnir af okkur Íslendingunum og tóku víkingaklappið eftir leik og svona. Það er spurning hvort þeir elti okkur í næsta leik, það væri gaman,“ sagði Freyr, en Ísland mætir Dönum á laugardag og Úsbekum á mánudag. Hann segir að aðstæður séu betri en hann bjóst við.

„Það er þess virði að fljúga alla þessa leið til Kína til að fá svona góða leiki og frábæra umgjörð. Ég er feginn því, satt best að segja, að allt sé í svona toppstandi. Það hefði verið svolítið pirrandi ef það hefði ekki verið. Umgjörðin við leikinn og allt í kringum hann var mun betri en ég þorði að vona,“ sagði Freyr. Maturinn sé einnig í góðu lagi.

„Ég hef aldrei borðað jafn mikið af hrísgrjónum á ævinni. En þetta er allt í standi,“ sagði Freyr Alexandersson við mbl.is í dag.

Nánar er rætt við Frey og fjallað um leikinn í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert