Öðruvísi að hafa ekki framherja með sér

Jón Daði Böðvarsson í skallaeinvígi við Domagoj Vida í Zagreb …
Jón Daði Böðvarsson í skallaeinvígi við Domagoj Vida í Zagreb í kvöld. AFP

„Þetta var allt í lagi leikur hjá okkur, ekkert hræðilegur. Við vorum inni í honum allan tímann og að skapa okkur hálffæri, vorum alltaf líklegir en tókst ekki að setja þetta síðasta sem vantaði,“ sagði Jón Daði Böðvarsson, framherji íslenska landsliðsins, eftir 2:0-tapið gegn Króötum í undankeppni HM í knattspyrnu.

Króatar eru með sigrinum áfram efstir í I-riðli, nú með 10 stig og þriggja stiga forskot á Ísland eftir fjóra leiki. Króatar skoruðu fyrra mark sitt snemma leiks en það seinna ekki fyrr en í lok leiksins. Íslenska liðið átti því lengst af von um að fá eitthvað út úr leiknum, en gekk illa að skapa alvöru færi eins og Jón Daði benti á. Hann komst næst því að skora í seinni hálfleik þegar hann renndi sér í boltann eftir undirbúning Jóhanns Berg Guðmundssonar og Gylfa Þórs Sigurðssonar.

„Þetta eru mikil hlaup og leiðindi, Króatarnir eru með frábæra miðju og erfitt að eiga við þá. Mér fannst við samt alltaf inni í þessu, og við fengum föst leikatriði sem við höfum verið sterkir í, en það vantaði lokahnútinn,“ sagði Jón Daði. Hann var ekki með eiginlegan framherja með sér í leiknum, því Gylfi Þór Sigurðsson var frammi með honum í fjarveru manna eins og Kolbeins Sigþórssonar og Alfreðs Finnbogasonar. Hvernig fannst honum það?

„Það er öðruvísi. Maður er vanur því að vera með öðrum framherja og þetta voru aðeins annars konar hlaupaleiðir og fleira. En maður tók auðvitað bara við því hlutverki sem þjálfarinn gaf manni og virðir það. Við gerðum okkar besta úr stöðunni og lærum af þessu,“ sagði Jón Daði, sem vill ekki afsaka neitt með því að vantað hafi helstu markaskorara íslenska liðsins:

„Það er engin afsökun. Auðvitað eru þeir mikilvægir liðinu en við teljum okkur vera með góða breidd og vorum með fínustu leikmenn sem komu inn í staðinn. Við náðum ekki að nýta það í dag.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert