Líst mjög vel á Solskjær

Óttar Magnús Karlsson með búning Molde í höfuðstöðvum félagsins.
Óttar Magnús Karlsson með búning Molde í höfuðstöðvum félagsins. Ljósmynd/@Molde_FK

„Þetta er búið að taka svolítinn tíma og það er gott að þetta sé í höfn,“ sagði Óttar Magnús Karlsson eftir að hafa skrifað undir samning til þriggja ára við norska knattspyrnufélagið Molde.

Óttar var keyptur til Molde frá Víkingi R. og þessi 19 ára framherji er spenntur fyrir því að leika undir stjórn Ole Gunnar Solskjær, fyrrverandi framherja Manchester United.

„Þeir sýndu mikinn áhuga á mér. Ég kom til að skoða aðstæður og leist mjög vel á bæinn. Ég sá leikinn gegn Sogndal, sem var ekki sá besti, en mér líkar vel við leikmennina og kann mjög vel við þjálfarann,“ sagði Óttar við heimasíðu Molde. Hann var beðinn um að lýsa sjálfum sér sem leikmanni, fyrir stuðningsmönnum norska liðsins:

„Ég er framherji, frekar hávaxinn og sterkur, örvfættur, með gott auga fyrir leiknum og góð skot.“ Spurður hvað hann hefði fram að færa fyrir Molde sagði Óttar, sem valinn var efnilegasti leikmaður Pepsi-deildarinnar í ár:

„Ég geri mitt besta eins og alltaf. Vonandi fæ ég einhverjar mínútur og byrja að spila eins fljótt og hægt er. Markmiðið mitt er að skora nokkur mörk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert