Vil ekki vera með krosslagða fingur í lotteríi

Sara Lissý Chontosh, Margrét María Hólmarsdóttir, Jóhanna K. Sigþórsdóttir og …
Sara Lissý Chontosh, Margrét María Hólmarsdóttir, Jóhanna K. Sigþórsdóttir og Elísabet Guðmundsdóttir endurnýjuðu samninga við KR á dögunum. Fyrir framan þær sitja Ólína Viðarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir sem eru komnar aftur til félagsins. Ljósmynd/KR.is

„Ég ætla alls ekki að fara að tala um að nú getum við orðið meistarar eða eitthvað slíkt. Það væri algjör geðveiki. Við náðum að taka „kvikmyndalegan“ viðsnúning í hálfleik gegn ÍA í lokaumferðinni, og héldum okkur þannig uppi í deildinni, þannig að mér finnst við ekkert geta verið kokhraustar,“ segir Edda Garðarsdóttir, þjálfari kvennaliðs KR í knattspyrnu.

Eftir ævintýralega björgun frá falli úr Pepsi-deildinni síðastliðið haust hafa KR-ingar fengið afar mikinn liðsstyrk nú í haust. Til félagsins eru komnar fjórar núverandi eða fyrrverandi landsliðskonur, allar fyrrverandi samherjar Eddu í KR og landsliðinu, með samtals 264 landsleiki að baki. Það eru þær Ólína G. Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir, Þórunn Helga Jónsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir. Katrín snýr heim úr atvinnumennsku í Englandi en Þórunn og Hólmfríður léku síðast með Avaldsnes í Noregi. Ólína hafði lagt skóna á hilluna en lék áður sem atvinnumaður í Englandi og í Svíþjóð.

Ætla má að koma þessara leikmanna gjörbreyti forsendum hjá KR-liðinu, sem síðustu tvö ár hefur verið í mikilli fallbaráttu eftir tvö ár þar á undan í 1. deildinni. Þegar Edda og leikmennirnir fjórir sem nú hafa snúið aftur léku með KR árið 2008, átti liðið í hörðum slag við Val um Íslandsmeistaratitilinn og landaði bikarmeistaratitlinum. Edda hefur hins vegar engan áhuga á að gæla upphátt við möguleikann á einhverju svipuðu á næsta tímabili.

„Lið hafa stundum verið svolítið yfirlýsingaglöð um að þau geti farið í titilbaráttu og eitthvað slíkt, en það er bara nóvember og algjör geðveiki að koma með einhverjar yfirlýsingar núna. Það á ýmislegt eftir að gerast, ekki bara hjá okkur heldur líka hinum liðunum, og við öndum bara inn um nefið og út um munninn. Við reynum að bæta það sem fyrir er, og vonandi geta þessir nýju, reynslumiklu leikmenn hjálpað okkur að lyfta þessu upp,“ segir Edda.

Nánar er fjallað um málið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert