Ég dútla kannski í neðri deildum

Hjálmar Jónsson skokkar um í sínum síðasta heimaleik fyrir IFK …
Hjálmar Jónsson skokkar um í sínum síðasta heimaleik fyrir IFK Gautaborg. Ljósmynd/ifkgoteborg.se

„Skórnir eru komnir upp á hilluna, alla vega hvað varðar toppfótbolta, en það getur vel verið að maður fari að dútla eitthvað í neðri deildum hér í Svíþjóð,“ sagði knattspyrnumaðurinn Hjálmar Jónsson í samtali við Morgunblaðið.

Hjálmar hefur leikið með IFK Gautaborg síðustu 15 árin og var hylltur af stuðningsmönnum félagsins í lokaleik liðsins í deildinni í síðasta mánuði en hann heyrir nú til goðsagnanna hjá þessu sögufræga félagi. Hjálmar, sem er 36 ára gamall og hóf sinn feril með Hetti á Egilsstöðum og gekk þaðan í raðir Keflvíkinga, lék alls 429 leiki með Gautarborgarliðinu, þar af 254 í sænsku úrvalsdeildinni, og skoraði samtals 16 mörk fyrir félagið í öllum keppnum.

,,Ég hef fengið einhver símtöl frá félögum hér í Svíþjóð og fyrirspurnir að heiman en það hefur svo sem ekkert farið neitt lengra,“ sagði Hjálmar.

Spurður hvort það blundi eitthvað í honum að fara út í þjálfun sagði Hjálmar:

,,Jú, hef áhuga á því og það er eitthvað sem ég væri alveg til í að skoða. Ég hef aðeins rætt málin við forráðamenn IFK Gautaborg um þessi mál og það getur vel farið svo að ég komi eitthvað inn í þjálfun hjá félaginu. Það ætti að skýrast í næsta mánuði. Ég hef ekki fengið neitt formlegt tilboð frá félaginu en við höfum rætt um það hvernig þetta gæti litið út,“ sagði Hjálmar.

Nánar er rætt við Hjálmar í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert