Garðar aftur í Garðabæinn

Garðar Jóhannsson.
Garðar Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn reyndi Garðar Jóhannsson er kominn aftur í Garðabæinn eftir eins árs dvöl hjá Fylki. Hann mun þó ekki spila með Stjörnunni á ný heldur hefur hann samið við 3. deildarliðið KFG. Fótbolti.net greinir frá þessu.

Lið KFG hafnaði í öðru sæti 4. deildarinnar á nýliðnu keppnistímabili og vann sér sæti í 3. deild og það ætti að vera umtalsverður liðsauki fyrir félagið að fá Garðar í hópinn.

Garðar er 36 ára og lék með meistaraflokki Stjörnunnar til 2002, síðan með KR og Val, þá með Frederikstad og Strømsgodset í Noregi og Hansa Rostock í Þýskalandi, en sneri aftur til Stjörnunnar árið 2010 og lék með liðinu í sex ár. Hann er annar markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild frá upphafi með 32 mörk. Garðar fór síðan til Fylkis fyrir síðasta tímabil og var þar spilandi aðstoðarþjálfari.

Hann hefur leikið 155 leiki í efstu deild hér á landi og skorað 44 mörk, þar af voru 19 leikir og 4 mörk fyrir Fylki á þessu ári, og þá lék Garðar 8 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert