Kristín og Jordan til ÍBV

Kristín Erna Sigurlásdóttir er komin aftur til ÍBV.
Kristín Erna Sigurlásdóttir er komin aftur til ÍBV. mbl.is/Ómar Óskarsson

Kvennalið ÍBV í knattspyrnu hefur fengið góðan liðsauka því Kristín Erna Sigurlásdóttir er komin aftur í raðir félagsins eftir eitt ár með Fylki og þá er varnarmaðurinn Adrienne Jordan komin til  Vestmannaeyja frá Östersund í Svíþjóð. Þetta kemur fram á vef ÍBV.

Kristín er 25 ára gömul og lék með ÍBV til 2015 en hún hefur spilað 67 leiki með liðinu í efstu deild og skorað í þeim 31 mark. Hún lék alla 18 leiki Fylkis í sumar og skoraði 2 mörk. Kristín hefur leikið með U23 og U19 ára landsliðum Íslands.

Adrienne Jordan er varnarmaður með þýskt og bandarískt ríkisfang, 22 ára gömul. Hún lék með bandarísku liðunum Colorado Pride og Chicago Red Stars en spilaði svo með Östersund í sænsku B-deildinni á þessu ári.

Eyjakonur hafa fengið meiri liðsstyrk því Shaneka Gordon mun leika með liðinu á ný á komandi keppnistímabili en hún missti af öllu Íslandsmótinu í ár eftir að hún fótbrotnaði seinnipart síðasta vetrar. Gordon, sem er landsliðskona Jamaíka, var í stóru hlutverki hjá ÍBV árin þar á undan en hún hefur skorað 65 mörk í 91 leik í efstu deild hér á landi. Hún var fyrst í röðum Grindvíkinga í deildinni og skoraði þá 18 mörk í 25 leikjum.

Kanadíski framherjinn Cloe Lacasse hefur samið við ÍBV um að leika áfram með liðinu eins og undanfarin tvö ár. Hún gerði 13 mörk í 18 leikjum í deildinni í sumar og hefur samtals gert 20 mörk í 35 leikjum í efstu deild fyrir Eyjakonur. 

Fyrirliðinn Sóley Guðmundsdóttir og miðjumaðurinn Sigríður Lára Garðarsdóttir hafa ennfremur gert nýja samninga við ÍBV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert