Neistinn enn til staðar

Eiður Smári Guðjohnsen
Eiður Smári Guðjohnsen mbl.is/Golli

Eiður Smári Guðjohnsen, einn besti knattspyrnumaður þjóðarinnar frá upphafi ef ekki sá besti, er ekki tilbúinn að leggja skóna á hilluna strax og takist honum að koma sér í gott líkamlegt form á næstu vikum útilokar hann það ekki að framlengja sinn glæsilega feril.

Eiður, sem er 38 ára gamall, hugðist spila með Pune City í indversku ofurdeildinni í haust og var búinn að gera samning við liðið. En meiðsli á æfingu með því rétt áður en deildin hófst í byrjun október gerði það að verkum að hann gat ekki tekið þátt í nýju ævintýri en keppni í deildinni lýkur fyrir jól.

,,Ég fór í segulómun fyrir tveimur vikum síðan og það leit bara nokkuð vel út og núna get ég hafið endurhæfingu. Nú stefni ég bara á að fara í endurhæfingu af fullum krafti og ég ætla svo bara að taka ákvörðun í janúar hvort ég ætli að halda áfram að spila eða ekki. Ef ég verð alveg heill heilsu og hef löngun til að spila þá er ég meira en til í að halda áfram að spila fótbolta. Neistinn er enn til staðar og ég er alveg viss um að löngunin til að spila fótbolta mun aldrei hætta hjá mér. Það er erfiðara að taka ákvörðun þegar maður er meiddur og finnur ekki hvar maður stendur en ég ætla að láta reyna á þetta og sé svo til hvort ég hafi eitthvað upp á að bjóða,“ sagði Eiður Smári við Morgunblaðið.

Ítarlegt einkaviðtal við Eið Smára er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert