Hulda frá Fylki til Englands

Hulda Sigurðardóttir með treyju Bury-liðsins.
Hulda Sigurðardóttir með treyju Bury-liðsins. Ljósmynd/Bury

Knattspyrnukonan Hulda Sigurðardóttir, sem lék alla leiki Fylkis í Pepsi-deildinni í sumar, er farin til Englands og mun leika með liði Bury í vetur.

Hulda mun leika með Bury í Norðvestur-deildinni, sem er tveimur þrepum fyrir neðan úrvalsdeildina, sem í raun er þriðja efsta deild. Í knattspyrnu kvenna á Englandi eru svo atvinnudeildirnar tvær nefndar WSL-1 og WSL-2.

Hulda lék með Fylki í sumar rétt eins og hún gerði árin 2011-2012 en hún hóf meistaraflokksferilinn hjá Leikni R. og spilaði með Haukum í 1. deild árin 2013-2015. Þá lék hún með liði King-háskólans í Tennesse á veturna árin 2014-2016. Hulda á að baki 10 leiki fyrir U17-landslið Íslands.

„Við erum hæstánægð með komu Huldu til félagsins. Um leið og við sáum hana spila þá vissum við að hún yrði frábær viðbót við liðið og að hún gæti hjálpað okkur að komast á næsta stig. Hún er önnur góða viðbótin sem við fáum eftir að Leah Tibbott kom frá Manchester City. Vonandi er von á fleirum og vonandi höldum við áfram að vaxa og dafna á komandi árum,“ sagði Paul Iannaccone, stjóri Bury.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert