„Valur sýndi mér mestan áhuga“

Dion Acoff í leik með Þrótturum.
Dion Acoff í leik með Þrótturum. Þórður Arnar Þórðarson

„Ég á marga vini á Íslandi, þekki ágætlega margt fólk og þegar maður kemst yfir þetta veður þá er þetta alls ekki svo slæmt land,“ sagði bandaríski framherjinn Dion Acoff sem samdi við bikarmeistara Vals í knattspyrnu í dag.

Þróttur fékk Acoff til félagsins á síðasta ári en hann lék með liðinu í 1. deildinni og fór með liðinu upp. Hann spilaði einnig með liðinu í sumar en það féll úr Pepsi-deildinni og niður í 1. deild. Hann skoraði samtals 9 mörk í 45 leikjum en ákvað að róa á önnur mið.

Hann samdi í dag við knattspyrnudeild Vals og mun leika með liðinu á næsta tímabili en hann er spenntur fyrir framhaldinu.

„Valur hafði samband og ég var mjög áhugasamur um að skrifa undir. Þetta er liðið sem sýndi mér mestan áhuga og það er góð tilfinning þegar svona félag hefur svona mikinn áhuga á að fá mann,“ sagði Acoff við mbl.is. í dag.

„Ég er hrifinn af Reykjavík, nálægt miðbænum. Ein aðalástæðan fyrir því að ég skrifaði undir er hvernig liðið spilar og auðvitað það að liðið spilar í Evrópukeppni auk þess sem það hefur unnið bikarinn síðustu tvö ár.“

Hann ræddi við Baldvin Sturluson, sem kom frá Val í Þrótt fyrir síðasta tímabil, en hann ræddi vel um klúbbinn og var þetta í raun aldrei spurning hjá Acoff.

„Ég hafði ekki áhuga á því að spila í fyrstu deildinni og vildi fyrst og fremst spila í efstu deild. Ég þekki Baldvin aðeins sem kom frá Val og ég spurði hann aðeins um félagið. Hann talaði afar vel um félagið og þjálfaraliðið þannig þetta var aldrei spurning,“ sagði Acoff í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert