Tilnefndir sem aðdáendur ársins af FIFA

Íslenskir stuðningsmenn á EM í sumar í Nice.
Íslenskir stuðningsmenn á EM í sumar í Nice. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Stuðningsmenn íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu á Evrópumótinu í sumar hafa verið tilnefndir sem aðdáendur ársins af FIFA.

Greint er frá þessu á vef BBC. Þar kemur fram að tæp 8% íslensku þjóðarinnar hafi farið á Evrópumótið þar sem Ísland komst alla leið í átta liða úrslit.

Aðrir sem eru tilnefndir eru stuðningsmenn Den Haag, FC Liverpool og Borussia Dortmund. Sigurvegararnir verða tilkynntir við hátíðlega athöfn í Zurich í janúar 2017.

Að sögn FIFA er keppnin haldin til þess að viðurkenna  framúrskarandi aðdáendahóp og getur hvaða hópur sem er verið tilnefndur, óháð deild, kyni eða þjóðerni.

Í umsögn FIFA kemur fram að víkingaklapp íslensku landsliðsmannanna og stuðningsmannanna hafi orðið ein þekktasta táknmynd Evrópumótsins.

Aðdáendur Den Haag voru tilnefndir fyrir að gefa börnum á barnaspítala í Rotterdam tuskudýr og aðdáendur Liverpool og Borussia Dortmound fyrir að sameinast í söng í tilefni þess þegar 27 ár voru liðin frá Hillsborough-stórslysinu þegar 96 aðdáendur liðanna létu lífið á leik 1989. Sungu þeir saman söng Liverpool, „You‘ll never walk alone“.

Að sögn FIFA voru tilnefningarnar valdar af sérstakri nefnd en almenningur velur sigurvegarann. Hægt er að kjósa hér til 9. janúar.

Víkingaklappið tekið á Allianz Riviera-leikvanginum í Nice eftir að íslenska …
Víkingaklappið tekið á Allianz Riviera-leikvanginum í Nice eftir að íslenska liðið komst í átta liða úrslit. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert