Hefðum getað unnið þetta stærra

Kári Árnason á landsliðsæfingu í Kína.
Kári Árnason á landsliðsæfingu í Kína. Ljósmynd/Wu Zhi Zhao

„Það var mjög gaman að spila í þessum aðstæðum og gott að ná sigri,“ sagði landsliðsmaðurinn Kári Árnason þegar mbl.is sló á þráðinn til Kína eftir 2:0 sigur Íslands á heimamönnum á alþjóðlegu knattspyrnumóti. Kári var fyrirliði Íslands í leiknum, en liðið spilar til úrslita á sunnudag.

Sjá frétt mbl.is: Ísland spilar til úrslita í Kína

„Þeir eru með fína leikmenn innanborðs. Við vorum klaufar í fyrri hálfleik og þeir sköpuðu sér færi vegna okkar klaufagangs. En þegar við náðum að hætta því í seinni hálfleik náðu þeir lítið að ganga á okkur og við hefðum getað unnið þetta stærra eftir á að hyggja,“ sagði Kári.

Hann segir aðstæður á vellinum hafi verið fínar, en helst hafi komið í ljós skortur á leikæfingu.

„Það er ekki hægt að kvarta yfir neinu. Völlurinn var svolítið þungur og hann tók í undir lokin. En það sást á köflum í fyrri hálfleik að menn eru ekki búnir að spila lengi, flestir ekki búnir að snerta bolta í mánuð eða tvo. Í ljósi þess var þetta mjög gott,“ sagði Kári.

Framtíðin er björt hjá Íslandi

Fjórir ungir leikmenn voru að spila sína fyrstu landsleiki í dag og þá skoraði Aron Sigurðarson sitt annað landsliðsmark í öðrum leik sínum með liðinu.

„Framtíðin er mjög björt hjá Íslandi held ég. Aron hefur sýnt það á þessum fáu æfingum og í leiknum í dag að hann er gríðarlega sprækur og á fullt erindi í hvað sem er. Hann þarf bara að koma sér frá Tromsö og fá að spila. Og svo er hægt að tala endalaust um hina strákana sem stóðu sig mjög vel,“ sagði Kári.

Hann segir að á morgun verði liðið í endurheimt, en íslenska liðið mætir sigurvegaranum úr viðureign Króatíu og Síle sem mætast á morgun. Hann segir að æfingamót sem þetta sé mjög kærkomið og ekki skemmi tímasetningin fyrir.

„Já, það er fínt að fá að sleppa við undirbúningstímabilið hjá Skandínavísku liðunum og vera frekar hér í góðum aðstæðum. Það er ekki hægt að kvarta yfir þessu,“ sagði Kári Árnason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert