Karitas og Eva Lind áfram á Selfossi

Karitas Tómasdóttir og Eva Lind Elíasdóttir ásamt Svövu Svavarsdóttur, stjórnarkonu.
Karitas Tómasdóttir og Eva Lind Elíasdóttir ásamt Svövu Svavarsdóttur, stjórnarkonu. Ljósmynd/Sunnlenska

Knattspyrnukonurnar Karitas Tómasdóttir og Eva Lind Elíasdóttir framlengdu í morgun samninga sína við knattspyrnudeild Selfoss og munu leika með liðinu í 1. deildinni næsta sumar. Þetta kemur fram á vef sunnlenska.is.

Karitas og Eva Lind, sem báðar eru 21 árs gamlar, hafa verið í stóru hlutverki hjá Selfossliðinu á undanförnum árum. Síðasta sumar fóru þær báðar í háskólanám í Bandaríkjunum og leika með skólaliðum þar, Karitas í Texas og Eva Lind í Kansas.

Eva Lind er sóknarmaður og hefur leikið 114 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss en Karitas er miðjumaður og hefur hún leikið 75 meistaraflokksleiki fyrir félagið.

„Við erum mjög ánægð með að Karitas og Eva Lind verði með okkur áfram. Þó að þær verði ekki á landinu allt keppnistímabilið þá munu þær styrkja okkur mikið þann tíma sem þær verða með okkur og koma með mikil gæði og reynslu inn í leikmannahópinn,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert