Sandra María framlengir við Þór/KA

Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen. mbl.is/Eggert

Sandra María Jessen, landsliðskona í knattspyrnu, skrifaði í dag undir eins árs samning við úrvalsdeildarlið Þórs/KA í knattspyrnu og mun því taka slaginn með liðinu í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð eftir að hafa reynt fyrir sér erlendis að undanförnu. Þetta kemur fram á thorsport.is.

Sandra lék alla 18 leiki Þórs/KA í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og skoraði í þeim 9 mörk en fyrir tímabilið lék hún með Leverkusen í efstu deild þýska fótboltans frá febrúar til maímánaðar.

Í nóvember var Söndru svo boðið að æfa með norska úrvalsdeildarliðinu Kolbotn þar sem henni var boðinn spennandi samningur. 

„Það hefði verið mjög spennandi að skipta um umhverfi og spila í norsku deildinni. Liðið leit vel út og aðstæðurnar góðar. Þór/KA ákvað aftur á móti að koma til móts við mig þannig að ég geti einbeitt mér betur að því að ná lengra í íþróttinni hér heima. Auk þess líst mér vel á bæði þjálfarateymið og hvernig hópurinn er stemmdur. Metnaðurinn er í hámarki og allir eru að leggja sig alla fram til að ná góðum árangri í sumar. Því finnst mér komandi tímabil mjög spennandi, bæði EM í Hollandi og eins held ég að sumarið með Þór/KA verði mjög áhugvert,“ sagði Sandra við Thorsport í dag. 

Á sama tíma var Andri Hjörvar Albertsson ráðinn í þjálfarateymið hjá norðankonum og mun hann aðstoða Halldór Jón Sigurðsson næstu þrjú árin.

Sandra María Jessen og Nói Björnsson handsala samninginn í dag.
Sandra María Jessen og Nói Björnsson handsala samninginn í dag. Ljósmynd/http://thorsport.is/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert