Ísland fékk silfur í Kína

Íslenska landsliðið fagnar marki gegn Kína á dögunum.
Íslenska landsliðið fagnar marki gegn Kína á dögunum. AFP

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu tapaði í dag fyrir Síle, 1:0, í úrslitaleik China Cup, alþjóðlegs knattspyrnumóts sem fram fór í Kína. Ísland hlaut því silfurverðlaun á mótinu eftir sigur á Kínverjum á þriðjudag.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel, var yfirvegað í sínum leik en náðu þó ekki að skapa sér færi að ráði. Þegar Síle fékk boltann reyndi liðið að keyra hratt fram völlinn og það átti eftir að bera árangur.

Á 18. mínútu komst Síle yfir, en hægri bakvörðurinn Óscar Opazo komst þá nálægt endamörkum og sendi fyrir markið. Þar komst framherjinn Ángelo Sagal fram fyrir fyrirliðann Kára Árnason og skallaði boltann í vinstra hornið framhjá Ögmundi Kristinssyni, sem stóð í marki Íslands.

Síle hafði yfirhöndina eftir markið, án þess þó að skapa sér teljandi marktækifæri. Það átti einnig við um Ísland, og var staðan 1:0 í hálfleik fyrir Síle.

Síðari hálfleikur byrjaði mjög rólega og var fátt um fína drætti. Síle hélt undirtökunum en íslenska liðið reyndi hvað það gat að jafna metin. Illa gekk þó að finna svör við skipulögðum leik Síle, og mátti Ísland því sætta sig við 1:0 tap þegar flautað var til leiksloka.

Síle stóð því uppi sem sigurvegari á mótinu og Ísland fékk silfur. Kína hlaut svo bronsið eftir sigur á Króatíu í leiknum um þriðja sætið í gær.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

Ísland 0:1 Síle opna loka
90. mín. Branco Ampuero (Síle) kemur inn á +1.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert