„Þeir hefðu átt að yfirspila okkur“

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. AFP

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, snýr sáttur frá Kína með silfur í farteskinu ásamt íslenska liðinu. Tap fyrir Síle, 1:0, í úrslitaleik China Cup í dag skyggir lítið á það góða veganesti sem þetta verkefni gefur í framhaldinu.

 Sjá frétt mbl.is: Ísland fékk silf­ur í Kína

„Ef við höldum andstæðingnum frá því að skora hjá okkur, þá eigum við alltaf möguleika. Eins og sýndi sig í þessum leik, við áttum möguleika á því að fá eitthvað út úr leiknum alveg þangað til dómarinn flautaði. Við erum glaðir með það hversu skipulagðir við gátum verið á svona stuttum tíma,“ sagði Heimir við mbl.is eftir leikinn.

Íslenska liðið vann Kína, 2:0, í undanúrslitum og segir Heimir að á pappírunum frægu hefði íslenska liðið átt að tapa stórt í úrslitaleiknum gegn Síle.

„Það er himinn og haf á milli styrkleika Síle og Kína. Síle er í fjórða sæti á heimslistanum, með atvinnumenn á miðju keppnistímabili og eru á allt öðrum stað en margir af okkar leikmönnum. Það er á svo margan hátt sem þeir hefðu átt að yfirspila okkur, en gerðu það ekki,“ sagði Heimir.

Heimir Hallgrímsson talar við kínverska fjölmiðla.
Heimir Hallgrímsson talar við kínverska fjölmiðla. Ljósmynd/Wu Zhi Zhao

Siggi Dúlla með almenn leiðindi

Það er ekki á hverjum degi sem Ísland spilar úrslitaleik og tekur Heimir undir að það hafi eflaust veitt íslensku strákunum byr undir báða vængi.

„Ég hugsa að það hafi hjálpað til og gefið mönnum eitthvað auka. En þetta var nógu stórt fyrir, mikið af áhorfendum og stór völlur með flottri umgjörð. Þetta er ólíkt því sem við eigum að venjast á þessum tíma svo það var bara allt jákvætt við þessa ferð held ég.

Nema Siggi Dúlla hefur verið með almenn leiðindi, en það er ekkert nýtt undir nálinni þar,“ sagði Heimir og hló, og greina mátti liðsstjórann Sigurð Svein Þórðarson í bakgrunni – hressan sem fyrr.

Aron Sigurðarson, Kári Árnason, Björn Bergmann Sigurðarson og Óttar Magnús …
Aron Sigurðarson, Kári Árnason, Björn Bergmann Sigurðarson og Óttar Magnús Karlsson fagna marki gegn Kína. AFP

Allir stóðu undir væntingum

Spurður hvað sé það helsta sem Heimir tekur með sér til þess að byggja á frá þessari ferð til Kína, er að fleiri leikmenn hafi bankað á dyrnar á landsliðshópnum til frambúðar. Rétt eins og vonir stóðu til.

„Við vorum að reyna stráka sem hafa ekki verið í æfingahópi eða með landsliðinu. Við prófuðum þá í okkar leikaðferð og umhverfi og sáum hvernig þeir virka. Við fengum tækifæri til þess að gefa nokkrum leikmönnum sinn fyrsta landsleik og fleiri fengu að sýna sig sem hafa lítið fengið að spila. Yfir línuna hafa allir staðið undir þeim væntingum sem við settum á þá,“ sagði Heimir og bætti við:

„Við höfum fengið mjög góð svör og ég held að framtíðin sé nokkuð björt hjá íslenska karlalandsliðinu,“ sagði Heimir Hallgrímsson við mbl.is.

Nánar verður rætt við Heimi í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kemur út í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert