Lars elskar Ísland en segir eitt pirrandi við landsliðið

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. AFP

Eins og greint var frá hér á mbl.is fyrr í kvöld var Lars Lagerbäck, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, útnefndur þjálfari ársins 2016 í Svíþjóð.

Sjá frétt mbl.is: Lars Lagerbäck þjálfari ársins í Svíþjóð

Lars var í ítarlegu viðtali við Göteborgs-Posten í dag, þar sem hann fer um víðan völl. Meðal annars tíma hans hjá íslenska landsliðinu, nema hvað.

„Ef hægt er að verða ástfanginn af landi, þá elska ég Ísland. Ég hef lært svo mikið á að sjá hvernig 330 þúsund manna þjóð getur haft það svona gott. Það skiptir ekki máli hvort það sé hundrað manna þorp, það er alltaf læknir og skóli á staðnum. Ömurlega stjórnsýslan sem við erum með hér í þessu landi [Svíþjóð] gæti lært mikið frá Íslandi, hvernig landsbyggðin er rekin,“ sagði Lars.

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. AFP

Lokar engum dyrum í framtíðinni

Eftir að Lars hætti með Ísland í sumar hefur hann verið ráðgjafi hjá sænska landsliðinu. Það er nokkuð önnur staða.

„Ég þarf ekki að taka mikla ábyrgð. Ég er eins og [...] blaðamaður. Þetta er fullkomin leið til þess að hægja á sér. Ég er að eldast og fullt starf gæti verið of mikið fyrir mig núna. En á sama tíma þá loka ég engum dyrum,“ sagði Lars, sem meðal annars hefur verið orðaður við landsliðsþjálfarastöðu Noregs.

Lars hefur einnig starfað sem sérfræðingur í sjónvarpi – einfaldlega af því að honum fannst „vanta almennilegan sérfræðing í það“.

„Það eru alltaf gamlir leikmenn og blaðamenn sem eru sérfræðingar á þessu sviði. Mér fannst vanta að þjálfari sem enn væri virkur í boltanum væri með og vildi hjálpa til á því sviði,“ sagði Lars.

Lars Lagerbäck.
Lars Lagerbäck. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Er ævisaga á leiðinni?

Lars talar um muninn á milli sænska knattspyrnusambandsins og þess íslenska. Hjá Svíþjóð hafi verið um 130 manns í vinnu, en hjá því íslenska aðeins um 18. Hann vandist því vel, fyrir utan eitt.

„Ég þurfti að læra að klippa myndbönd sjálfur og slíkt, sem var óvenjulegt en ekki verra. Það eina sem var svolítið pirrandi var að við flugum alltaf á almennu farrými, með tilheyrandi tengiflugum og bið á milli fluga. Það fer illa með mann,“ sagði Lars.

Hann var spurður að því hvort hann ætlaði að gefa út ævisögu um langan og litríkan feril. Það stóð ekki á svari hjá hinum skemmtilega Svía.

„Hver ætti svo sem að vilja að lesa hana?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert