Blikar fá milljónir vegna Sverris

Sverrir Ingi Ingason er byrjaður að æfa með Granada.
Sverrir Ingi Ingason er byrjaður að æfa með Granada. Ljósmynd/granadacf.es

Knattspyrnudeild Breiðabliks hagnast vel vegna sölu belgíska félagsins Lokeren á landsliðsmiðverðinum Sverri Inga Ingasyni til Granada á Spáni.

Kaupin gengu í gegn í dag og skrifaði Sverrir undir samning sem gildir til ársins 2020.

Sverrir er uppalinn Bliki og var í röðum Breiðabliks þar til að hann fór í atvinnumennsku til Viking í Noregi fyrir tímabilið 2014.

Samkvæmt reglum FIFA um uppeldisbætur eiga Blikar rétt á að fá í sinn vasa 3,5% af kaupverðinu sem Lokeren og Granada sömdu um, og er það í höndum Granada að greiða þá upphæð til Breiðabliks. Samkvæmt heimildum mbl.is nam kaupverðið um það bil 230 milljónum íslenskra króna, og því á Breiðablik von á rúmlega 8 milljónum króna í sinn vasa á næstunni.

Sjá einnig: Tek áhættu en er mjög bjartsýnn

Viking í Noregi, sem á einnig rétt á uppeldisbótum vegna sölunnar á Sverri, á von á 23 milljónum íslenskra króna í sinn vasa, samkvæmt frétt Aftenposten. Það er vegna þess að Viking setti sérstakt ákvæði í samning sinn við Lokeren þess efnis að Viking fengi 20% af næstu sölu á leikmanninum. Samkvæmt Aftenposten greiddi Viking Breiðabliki jafnvirði 13 milljóna króna fyrir Sverri á sínum tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert