ÍA, Blikar, Fjölnir og FH unnu stórt

Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö mörk fyrir Skagamenn.
Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö mörk fyrir Skagamenn. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Sjö úrvalsdeildarlið karla voru á ferðinni í gær á vetrarmótununum í knattspyrnu þar sem Skagamenn, Blikar, Fjölnismenn og FH-ingar unnu stóra sigra.

Skagamenn léku Grindvíkinga grátt á Fótbolta.net-mótinu og unnu þá 6:1 í Akraneshöllinni. Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði tvö marka ÍA, Steinar Þorsteinsson, Þórður Þ. Þórðarson, Ólafur Valur Valdimarsson og Albert Hafsteinsson eitt hver en Andri Rúnar Bjarnason gerði mark Grindvíkinga sem eru nýliðar í úrvalsdeildinni í ár.

FH vann ÍBV, 3:0, á sama móti og líka í Akraneshöllinni en mörkin komu öll í fyrri hálfleik. Kristján Flóki Finnbogason, Bergsveinn Ólafsson og Steven Lennon skoruðu.

Blikar heimsóttu Keflvíkinga, líka á Fótbolta.net-mótinu, og unnu þá 4:1 í Reykjaneshöllinni. Arnþór Ari Atlason, Sólon Breki Leifsson og Atli Sigurjónsson skoruðu fyrir Blika og eitt marka þeirra var sjálfsmark en Ari Steinn Guðmundsson skoraði fyrir Keflavík.

Enn einn þriggja marka sigurinn kom á Reykjavíkurmótinu þar sem Fjölnir lagði Val, 3:0, í Egilshöllinni. Marcus Solberg, Bojan Stefán Ljubicic og Þórir Guðjónsson skoruðu mörk Fjölnis en Valsmaðurinn Guðjón Pétur Lýðsson var rekinn af velli eftir 70 mínútna leik.

Þá vann Leiknir R. sigur á Þrótti R. í viðureign 1. deildarliðanna á Reykjavíkurmótinu. Ingvar Ásbjörn Ingvarsson og Kristján Páll Jónsson skoruðu fyrir Leikni en Rafn Andri Haraldsson minnkaði muninn fyrir Þrótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert