Guðrún Karítas til liðs við KR

Guðrún Karítas á ekki langt að sækja hæfileikana því faðir …
Guðrún Karítas á ekki langt að sækja hæfileikana því faðir hennar er goðsögnin Sigurður Jónsson. Ljósmynd/Jón Gunnlaugsson

Kvennalið KR í knattspyrnu heldur áfram að safna liði fyrir á komandi leiktíð. Guðrún Karítas Sigurðardóttir hefur skrifað undir tveggja ára samning við KR að því er fram kemur á vef félagsins.

Guðrún Karítas, sem er 21 árs gömul og dóttir Sigurðar Jónssonar, fyrrverandi landsliðsmanns og atvinnumanns, kemur til KR frá Íslandsmeisturum Stjörnunnar sem hún hefur leikið með undanfarin tvö ár en þar áður lék hún með uppeldisfélagi sínu, ÍA.

Guðrún lék 9 leiki með Stjörnunni í Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð. Hún hefur spilað 82 meistaraflokksleiki og skoraði í þeim 30 mörk. Þar af eru 43 leikir og 7 mörk í úrvalsdeildinni með Stjörnunni og ÍA.

Guðrún Karítas var kosin efnilegasti leikmaðurinn í Pepsi-deildinni árið 2014 en hún hefur leikið með U17 og U19 ára landsliðinu, samtals 16 leiki og hefur í þeim skorað 6 mörk.

„Guðrún Karítas er sannarlega ánægjuleg viðbót við liðið og ber merki um þann metnað sem félagið hefur fyrir liði sínu, sem í er að finna góða blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum, eldri reynsluboltum og landsliðskonum,“ segir á vef KR.

KR hefur styrkt lið sitt gríðarlega mikið fyrir leiktíðina og meðal þeirra leikmanna sem hafa gengið í raðir vesturbæjarliðsins eru Hólmfríður Magnúsdóttir, Ólína G. Viðarsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir.

KR náði að bjarga sér frá falli úr Pepsi-deildinni á síðustu leiktíð með ágætum endaspretti en liðið endaði í 7. sæti af 10 liðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert