Spænskur miðvörður í Leikni

Leiknismenn komu skemmtilega á óvart í fyrra þegar þeir héldu …
Leiknismenn komu skemmtilega á óvart í fyrra þegar þeir héldu sæti sínu í 1. deild. mbl.is/Golli

Fyrstudeildarfélag Leiknis á Fáskrúðsfirði hefur fengið til sín spænska knattspyrnumanninn Javier Ángel del Cuteo fyrir komandi keppnistímabil.

Del Cueto er 26 ára gamall og leikur stöðu miðvarðar. Hann hefur hingað til leikið með liðum í neðri deildunum á Spáni, síðast með Almoradí.

Hann er þriðji leikmaðurinn sem Leiknismenn fá í sínar raðir í vetur en áður voru komnir pólski markvörðurinn Robert Winogrodzki frá Wismut Gera í Þýskalandi og sóknartengiliðurinn Kristinn Snólfsson frá Sindra á Hornafirði.

Del Cueto á að leysa af hólmi landa sinn, Antonio Calzado, sem lék í stöðu miðvarðar með Leiknismönnum lengst af á síðasta tímabili.

Að sögn Magnúsar Björns Ásgrímssonar formanns knattspyrnudeildar Leiknis mun líkast til einn erlendur leikmaður í viðbót bætast í hópinn fyrir tímabilið en spænskur leikmaður kom til reynslu hjá félaginu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert