„Af hverju fórum við ekki alla leið?“

Jón Daði Böðvarsson fagnar marki á EM síðasta sumar.
Jón Daði Böðvarsson fagnar marki á EM síðasta sumar. AFP

Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson viðurkennir að hann hugsi stundum af hverju íslenska landsliðið í knattspyrnu hafi ekki náð lengra á Evrópumótinu síðastliðið sumar.

Ísland féll úr leik í 8 liða úrslitum eftir 5:2-tap fyrir Frökkum. Portúgal stóð að lokum uppi sem sigurvegari en Ísland og Portúgal gerðu jafntefli í riðlakeppninni. 

„Það var engin pressa á okkur og við fórum fullir gleði inn í mótið,“ sagði Jón Daði í samtali við Sky Sports þegar hann rifjar upp Evrópumótið.

„Hópurinn var gríðarlega samstilltur og margir höfðu leikið saman áður og við þekktumst mjög vel. Þjálfararnir voru frábærir og þeir héldu okkur niðri á jörðinni og hvöttu okkur til dáða. Þetta var sannkölluð sigurformúla,“ bætti Jón Daði við.

Ísland gerði jafntefli við Portúgal sem síðar urðu Evrópumeistarar.
Ísland gerði jafntefli við Portúgal sem síðar urðu Evrópumeistarar. AFP

Selfyssingurinn rifjar upp að Lars Lagerbäck, annar þjálfara Íslands, hafi sagt liðinu fyrir leikinn gegn Englandi í 16 liða úrslitum að England væri ofmetnasta liðið í mótinu. „Það kveikti í okkur og við vissum að við gætum unnið þá. Við vissum að pressan væri á þeim,“ sagði Jón Daði og bætti við að hann hugsi enn um leikinn gegn Frökkum:

„Við féllum út með reisn. Við mættum Portúgal í riðlakeppninni, þeir enduðu í þriðja sæti í riðlinum og urðu meistarar. Ég hugsa stundum með mér: „Af hverju fórum við ekki alla leið?““ sagði Jón Daði en hann verður í eldlínunni á morgun þegar lið hans, Wolves, tekur á móti Chelsea í 16 liða úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Viðtalið má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert