Guðmundur sagður á leið til Norrköping

Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson. AFP

Guðmundur Þórarinsson, leikmaður norska meistaraliðsins Rosenborg, er sagður vera á leið til sænska úrvalsdeildarliðsins Norrköping.

Sænski netmiðillinn fotbollskanalen.se greinir frá þessu í dag en Guðmundur gekk í raðir Rosenborg fyrir síðustu leiktíð frá danska liðinu Nordsjælland og gerði samning til ársins 2019. Guðmundur kom við sögu í 24 leikjum Rosenborg á síðustu leiktíð og var í byrjunarliðinu í 15 þeirra.

Tveir Íslendingar eru í herbúðum með Norrköping en það er varnarmaðurinn Jón Guðni Fjóluson og hinn ungi Alfons Sampsted sem gekk í raðir félagsins fyrir nokkru frá Breiðabliki. Norrköping hefur boðað til fréttamannafundar í dag og þar er búist við því að Guðmundur verði kynntur til sögunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert