Leiknir fær annan Spánverja

Leiknismenn léku í fyrsta sinn í 1. deild í fyrra.
Leiknismenn léku í fyrsta sinn í 1. deild í fyrra. mbl.is/Golli

Leiknir frá Fáskrúðsfirði, sem leikur í 1. deild karla í knattspyrnu, hefur bætt við sig spænskum leikmanni, Carlos Carrasco, sem hefur fengið leikheimild með félaginu.

Carrasco er 24 ára gamall, sókndjarfur miðjumaður, sem leikur fremstur á miðjunni eða á vinstri kantinum. Honum er ætlað að fylla skarð Kristófers Páls Viðarssonar, sem skoraði 10 mörk fyrir Leikni í 1. deildinni í fyrra en er genginn til liðs við úrvalsdeildarlið KA. Carrasco lék síðast með Almoradí á Spáni og hefur spilað með nokkrum liðum í heimalandi sínu en einnig með hollenska liðinu Dordrecht í B-deildinni þar í landi.

Þar með hefur Leiknir fengið þrjá nýja erlenda leikmenn í vetur. Miðvörðurinn Javier Ángel del Cueto kom einnig frá Almoradí og þá er pólski markvörðurinn Robert Winogordzki kominn til Leiknis frá Wismut Gera í Þýskalandi. Þriðji Spánverjinn er í röðum Leiknis, Jesus Suárez, en hann lék með liðinu í fyrra.

Þá gekk Sverrir Bartolozzi, varnarmaður úr Stjörnunni, til liðs við Leikni í dag. Hann er 19 ára, lék einn leik með Haukum í 1. deild 2015, og verður til reynslu hjá liðinu í Lengjubikarnum.

Breytingar á íslensku liðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert