Sögulegur áfangi Óskars með KR

Óskar Örn Hauksson hefur verið drjúgur fyrir KR-inga um árabil.
Óskar Örn Hauksson hefur verið drjúgur fyrir KR-inga um árabil. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Óskar Örn Hauksson varð í dag næstmarkahæsti knattspyrnumaðurinn í sögu KR og um leið þriðji leikmaðurinn frá upphafi til að skora 100 mörk fyrir meistaraflokk karla hjá Vesturbæingum.

Óskar skoraði tvö marka KR í 4:0 sigri á ÍBV í Lengjubikarnum eins og áður hefur komið fram í dag en fyrir leik var hann kominn með 99 mörk í opinberum leikjum fyrir KR.

Félagsmetið á Ellert B. Schram sem skoraði 119 mörk fyrir félagið á sínum tíma. Þorsteinn Einarsson var áður búinn að ná 100 mörkum fyrir KR, í kringum miðja síðustu öld.

Fyrra mark Óskars var því hans hundraðasta fyrir félagið og með því síðara komst hann upp fyrir Þorstein og í annað sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert