Landsliðsmiðverðir ekki í leikæfingu

Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason hafa ekki misst úr mótsleik …
Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason hafa ekki misst úr mótsleik með landsliðinu undanfarin ár. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Landsliðsmiðverðirnir Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason léku ekki með liðum sínum í gær frekar en undanfarnar vikur og mæta því frekar ryðgaðir til Parma á Ítalíu á morgun þar sem íslenska landsliðið kemur saman til æfinga fyrir leikinn gegn Kósóvó næsta föstudagskvöld.

Kári missti af fimmta deildarleik Omonia í röð þegar liðið vann Anorthosis, 2:0, í úrslitakeppninni um meistaratitilinn á Kýpur í gær. Hann brákaði rifbein í öðrum leik sínum með liðinu og hefur enn fremur misst af tveimur bikarleikjum undanfarnar vikur.

Ragnar var ekki í leikmannahópi Fulham sem tapaði 1:3 fyrir Wolves í ensku B-deildinni í gær. Ragnar hefur ekki komið við sögu í sjö síðustu leikjum Fulham, ýmist setið á varamannabekknum eða ekki verið í hópnum, og aðeins spilað einn af síðustu fjórtán leikjum Lundúnaliðsins.

Á meðan hafa miðverðirnir Sverrir Ingi Ingason og Hólmar Örn Eyjólfsson spilað hvern einasta leik með sínum liðum, Granada og Maccabi Haifa, undanfarnar vikur. Þeir verða báðir á ferðinni í dag þegar Granada mætir Sporting Gijon í spænsku 1. deildinni og Haifa mætir Hapoel Beer Sheva í úrslitakeppninni um ísraelska meistaratitilinn. Þeir eru væntanlega í startholunum ef annaðhvort Kári eða Ragnar verða ekki tilbúnir í leikinn gegn Kósóvó í Shkodër á föstudagskvöldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert