Rúrik fékk ekki að spila í Berlín

Rúrik Gíslason í landsleik.
Rúrik Gíslason í landsleik. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Rúrik Gíslason mun ekki spila með Nürnberg í þýsku B-deildinni í knattspyrnu á mánudagskvöldið þar sem KSÍ krafðist þess að hann yrði kominn til móts við landsliðið í Parma um hádegi þann dag.

Nürnberg spilar við Union Berlín í Berlín á mánudagskvöldið og Rúrik hefði því ekki hitt landsliðshópinn fyrr en á þriðjudeginum og misst af tveimur æfingum þar. Íslenska liðið kemur saman í Parma á mánudag og æfir þar til miðvikudags þegar það flýgur til Albaníu og mætir þar Kósóvó í undankeppni HM á föstudagskvöldið.

Forráðamenn þýska félagsins freistuðu þess að fá að halda Rúrik fram yfir leikinn en KSÍ nýtti rétt sinn til að fá hann strax til sín.

Rúrik kemur nú inn í landsliðshópinn í fyrsta skipti síðan haustið 2015. Hann var frá keppni nær allan veturinn 2015-16 vegna meiðsla og fékk fá tækifæri með Nürnberg framan af þessu tímabili en hefur átt fast sæti í liðinu undanfarnar vikur og gengið vel.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert