„Leikformið skiptir ekki öllu máli“

Kári Árnason.
Kári Árnason. mbl.is/Golli

Miðvörðurinn reyndi, Kári Árnason, segist vera nokkuð góður til heilsunnar í aðdraganda leiksins gegn Kósóvó í undankeppni HM á föstudaginn þrátt fyrir að meiðsli hafi angrað hann síðustu vikurnar. 

„Heilsan er bara ágæt. Mér líður ágætlega. Ég hef auðvitað verið frá í smá tíma en úthaldið er í góðu lagi þótt leikformið gæti verið betra. Þegar öllu er á botninn hvolft þá skiptir það ekki öllu máli,“ sagði Kári sem hefur getað tekið þátt í öllum æfingum landsliðsins frá því það kom saman í Parma á mánudaginn. „Ég hef æft á fullu og ekki fundið fyrir neinu.“

Kári segir að nú sé runninn upp sá tími þar sem fleiri leikmenn geti sannað sig með landsliðinu vegna þeirra forfalla sem eru í hópnum en Ísland er án Kolbeins Sigþórssonar, Alfreðs Finnbogasonar, Birkis Bjarnasonar, Jóhanns Bergs Guðmundssonar og Theodórs Elmars Bjarnasonar. 

„Við höfum verið frekar heppnir með meiðsli síðustu árin en við erum ekki að spá of mikið í það. Auðvitað viljum við hafa sem flesta að velja úr en í þetta skipti eru strákar frá vegna meiðsla sem hafa spilað nánast allar mínúturnar. Nú er tími fyrir aðra til að sanna sig og ég vona að þeir geri það. Í hópnum núna sjáum við andlit sem hafa nýtt tækifæri sín vel í vináttulandsleikjunum. Nú er tækifæri fyrir þá að sýna hvað þeir geta í alvöru leik,“ sagði Kári Árnason í samtali við mbl.is í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert