„Þurfum á toppleik að halda“

Sverrir Ingi Ingason.
Sverrir Ingi Ingason. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er hörkugott lið sem við erum að fara að mæta,“ sagði miðvörðurinn Sverrir Ingi Ingason þegar mbl.is ræddi við hann um leikinn sem fram undan er gegn Kósóvó í undankeppni HM 2018 á föstudagskvöldið. 

„Þetta verður bara hörkuleikur. Við höfum fengið ítarlega kynningu á liði Kósóvó og þessir leikmenn spila fyrir góð félagslið,“ sagði Sverrir en að hans mati er ekki óeðlilegt að knattspyrnuáhugamenn álíti Ísland sigurstranglegra liðið þar sem Ísland er með 7 stig í riðlinum en Kósóvó 1 stig. 

„Auðvitað þykjum við sigurstranglegri. Bæði erum við ofar í riðlinum en einnig út af því hvernig við höfum staðið okkur undanfarin ár. Þegar dregið var í riðlana þá virtust leikirnir við Kósóvó vera leikir þar sem gerð væri krafa um að við myndum vinna. Þeir hafa hins vegar sýnt það í leikjunum hingað til að Kósóvar eru sýnd veiði en ekki gefin. Þeir hafa verið í hörkuleikjum nema á móti Króatíu. Voru til dæmis vel inni í leiknum í Tyrklandi og tóku stig í Finnlandi. Þetta verður verðugt verkefni og við förum að sjálfsögðu með því hugarfari í þennan leik að vinna. En á sama tíma vitum við að þetta er ekki auðvelt verkefni og við þurfum á toppleik að halda til að klára dæmið,“ sagði Sverrir í samtali við mbl.is. 

Sverrir ásamt félögum sínum á æfingu í morgun.
Sverrir ásamt félögum sínum á æfingu í morgun. mbl.is/Kris
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert