Breiðablik tryggði toppsætið

Svava Rós Guðmundsdóttir sneri aftur og skoraði.
Svava Rós Guðmundsdóttir sneri aftur og skoraði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Breiðablik er öruggt með toppsætið í A-deild Lengjubikar kvenna í knattspyrnu eftir öruggan sigur á FH, 4:2, í Fífunni í dag.

Blikar byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 2:0 strax eftir tíu mínútna leik. Fyrst skoraði Svava Rós Guðmundsdóttir í sínum fyrsta leik eftir að hafa glímt við meiðsli, áður en Berglind Björg Þorvaldsdóttir tvöfaldaði forskotið eftir hornspyrnu.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks bætti Fanndís Friðriksdóttir svo við þriðja markinu, staðan 3:0 í hálfleik. Á 74. mínútu bætti Hildur Antonsdóttir við fjórða marki Blika, áður en FH-ingar komu til baka.

Alda Ólafsdóttir minnkaði muninn fyrir FH á 77. mínútu, og bætti svo við öðru marki fimm mínútum síðar. Nær komst FH hins vegar ekki, lokatölur 4:2 fyrir Blika.

Blikar hafa tryggt sér efsta sætið og mæta liðinu sem hafnar í því fjórða í undanúrslitum. Valur er kominn áfram en ÍBV, Stjarnan og Þór/KA berjast um síðustu tvö sætin í undanúrslitunum. Þau mætast innbyrðis á sunnudag, en FH tapaði öllum fimm leikjum sínum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert