„Óánægður ef við vinnum ekki“

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson mbl.is/Ófeigur Lýðsson

 „Það kæmi ekki sérstaklega á óvart ef við vinnum ekki en ég yrði mjög óánægður ef það yrði niðurstaðan vegna þess að okkar markmið er að ná öðru af tveimur efstu sætunum í riðlinum,“ sagði landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson meðal annars á blaðamannafundi í Shkodër í Albaníu í morgun. 

„Þess vegna þurfum við á sigrinum að halda. En þetta er samt sem áður 50/50 leikur,“ bætti Heimir við en fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sat einnig fundinn en fékk mun færri spurningar en Heimir. 

Fátt nýtt kom fram á fundinum en helstu tíðindin eru þau að allir leikmenn íslenska liðsins eru leikfærir að sögn Heimis. Um það hafa verið vísbendingar í vikunni eins og sjá má í fréttaflutningi mbl.is síðustu daga.  

Heimir sagðist hafa verið nægður með æfingarnar í Parma og aðstæðurnar þar. Hrósaði einnig hótelinu og leikvanginum í Shkodër og er augljóslega ánægður með aðbúnaðinn í Albaníu.

Spurður um lið Kósóvó sagði Heimir: „Við teljum okkur vita töluvert um lið Kósóvó og undirbjuggum okkur vel. Þeirra leikmenn eru hæfileikaríkir. Þeir spila fyrir góð félagslið í Evrópu og eru í framför sem lið. Í síðasta leik gegn Tyrklandi hefðu þeir getað verið yfir að loknum fyrri hálfleik. Fengu einnig fullt af marktækifærum gegn Króatíu þótt þeir töpuðu leiknum stórt. Kósóvar hafa burði til að skapa sér marktækifæri og eru því hættulegir í skyndisóknum. Okkar njósnari hefur tekið út liðið og við þekkjum því ágætlega þá leikmenn sem hafa spilað hingað til,“ sagði Heimir og hrósaði sérstaklega þjálfara Kósóvó, Albert Bunjaki, vegna þess að hann þarf að setja saman nýtt lið en hefur ekki getað stuðst við uppbyggingarstarfssemi yngri landsliða.

Aron tók í svipaðan streng: „Þeir eru í miðju ferli þar sem þeir eru að búa til lið. Mér finnst það ganga nokkuð vel hjá þeim en það tekur skiljanlega tíma. Þeir hafa sýnt ákveðna getu á vellinum og við þurfum að gæta okkar,“ sagði Aron og spurður um hvort hann þekkti leikmenn hjá Kósóvó sagðist hann ekki hafa þekkt marga áður en kom að undirbúningi fyrir leikinn. 

„Ég þekkti ekki marga leikmenn hjá Kósóvó en við höfum farið vel yfir þá og liðið í okkar undirbúningi.“

Heimir var einnig spurður út í forföllinn í íslenska liðinu og hvort það myndi hafa áhrif á spilamennskuna. „Eins og allir þjálfarar vil ég geta teflt öllum mínum mönnum fram. Það væri hægt í fullkomnum heimi en við lifum ekki í fullkomnum.  Ég vona að forföllin hafi ekki áhrif á okkur og við erum bjartsýnir meðal annars vegna þess að ungir leikmenn hafa komið af krafti inn í hópinn,“ sagði Heimir. 

Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert