„Þrjú ljót stig“

Aron Einar Gunanrsson fagnar með félögum sínum í Shkodër í …
Aron Einar Gunanrsson fagnar með félögum sínum í Shkodër í kvöld. AFP

„Við vissum að þetta yrði erfitt og að þeir myndu gera okkur erfitt fyrir,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson eftir 2:1-sigur Íslands við Kósóvó ytra í undankeppni heimsmeistaramótsins í kvöld.

Aron var í viðtali við RÚV strax eftir leikinn og kvaðst sérstaklega ánægður með stigin þrjú, skiljanlega, þó spilamennskan hafi ekki verið sú besta.

„Þrjú ljót stig, en við tökum það svo sannarlega. Við náðum ágætu spili á körflum í fyrri hálfleik. Svo var seinni hálfleikur bara lélegur af okkar hálfu, en við náðum að berjast fyrir þessum þremur stigum,“ sagði Aron Einar og bjóst við hörkuleik.

„Við vissum að Kósóvó væri ekki lélegt lið, þeir voru að spila vel og lögðu upp með langa bolta fram. Við vissum að þetta yrði barátta en er virkilega ánægður með stigin þrjú. Það var markmiðið og það var það sem við gerðum, þó þetta hafi ekki verið fallegt,“ sagði Aron Einar

Króatía vann Úkraínu svo Ísland komst upp í annað sæti riðilsins. Króatía er á toppnum og kemur í heimsókn í Laugardalinn í júní

„Þetta gerir bara þennan leik í sumar enn skemmtilegri, það er allt undir þar. En við þurfum að spila betur þá en í dag til að fá eitthvað úr þeim leik,“ sagði Aron Einar við RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert