Harpa segir ekki tímabært að tala um EM

Harpa Þorsteinsdóttir.
Harpa Þorsteinsdóttir. mbl.is/Golli

Harpa Þorsteinsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu og leikmaður Stjörnunnar, vonast til þess að geta farið að hlaupa eftir um tvær vikur. Hún eignaðist dreng núna í febrúar.

„Hann kom tíu dögum fyrir settan dag og það var kærkomið. Það munar um það. Ég græði hins vegar ekki á því hvað mótið byrjar snemma. Ég tapa þar,“ sagði Harpa við fotbolti.net um endurkomu hennar á knattspyrnuvöllinn.

„Ég byrja vonandi að hlaupa eftir tvær vikur og þá sé ég þetta betur en ég held að þetta sé raunsætt með vorinu. Um leið og ég byrja að æfa sé ég betur hvenær er raunhæft að fara að byrja að spila. Mesta spurningarmerkið var hvort mig langaði að fara aftur í fótbolta. Ég er komin með smá fiðring í tærnar að koma mér í form og það er fyrsta skrefið,“ sagði Harpa.

Hún sagðist þó ekkert vilja leiða hugann að Evrópumeistaramótinu sem fram fer í Hollandi í júlí.

„Mér finnst núna skipta mestu máli að ég fái frið til að koma mér í stand og byrja að spila fyrir Stjörnuna. Það er ekki mitt að gefa út núna hvort það sé raunhæft fyrir mig,“ sagði Harpa í viðtalinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert