„Kippi mér ekkert upp við þetta“

Gylfi Þór í baráttu í leiknum við Kósóvó á föstudagskvöldið.
Gylfi Þór í baráttu í leiknum við Kósóvó á föstudagskvöldið. AFP

„Ég fékk nokkur högg í leiknum bæði á mjöðmina og fótinn og það var ákveðið að ég fengi frí frá leiknum við Írana,“ sagði landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson í samtali við mbl.is en Gylfi, Arnór Ingvi Traustason og Emil Hallfreðsson drógu sig allir út úr landsliðshópnum eftir leikinn við Kósóvó á föstudagskvöldið vegna meiðsla og verða því ekki með í leiknum gegn Írum í Dublin annað kvöld.

„Ef þetta hefði verið mótsleikur við Írana hefði ég verið með í honum en fyrst þetta er vináttuleikur þá var ákveðið að taka ekki neina áhættu. Nú tekur bara við hjá mér að safna kröftum fyrir gríðarlega mikilvægan leik á móti Middlesbrough sem verður á sunnudaginn og að ég verði pottþétt klár í þann leik. Það er ekkert sem heitir fyrir okkur annað en að ná í þrjú stig í þeim leik eftir þessa tvo tapleiki í röð á móti Hull og Bournemouth. Við megum alls ekki við því að missa stig í þessum leik og það verður allt lagt í sölurnar að ná í sigur,“ sagði Gylfi Þór.

Mikið hefur verið rætt og ritað um Gylfa síðustu vikur og daga en það stefnir í að mörg lið muni falast eftir honum í sumar. Nýjasta liðið sem hefur blandað sér í baráttuna um íslenska landsliðsmanninn er Newcastle.

„Ég kippi mér ekkert upp við þetta. Ég orðinn vanur því að vera orðaður við hin og þessi lið og ég er ekkert að velta mér upp úr því. Ég er bara einbeittur á Swansea og mun gera allt sem ég get til þess að við höldum sæti okkar í deildinni. Eftir gott gengi kom bakslag í þetta hjá okkur með þessum tveimur tapleikjum en nú verðum við bara að komast aftur á sigurbraut á sunnudaginn. Ef ekki þá verður þetta bölvað basl fram á síðustu stundu,“ sagði Gylfi sem átti stærstan þátt í að tryggja íslenska landsliðinu þrjú dýrmæt stig í leiknum við Kósóvó í Albaníu á föstudaginn.

„Þetta var ekki góður leikur af okkar hálfu en stigin þrjú voru ákaflega dýrmæt og við erum enn í góðu tækifæri að komast á HM. Vissulega eru Króatarnir í góðri stöðu og eru með frábært lið en við fáum þá í heimsókn á Laugardalsvöllinn í júní og þar ætlum við svo sannarlega að selja okkur dýrt,“ sagði Gylfi Þór, sem hefur farið á kostum með Swansea City á leiktíðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert