Strákarnir höfðu betur gegn Sádi-Aröbum

Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21 árs landsliðsins.
Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21 árs landsliðsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

21 árs landslið karla í knattspyrnu lagði Sádi-Arabíu að velli, 3:1, í vináttuleik í Frosinone á Ítalíu í dag en þetta var þriðji leikur liðsins á sex dögum.

Tryggvi Hrafn Haraldsson úr ÍA og Jón Dagur Þorsteinsson, Fulham, komu Íslendingum í 2:0 um miðjan seinni hálfleikinn en Sádi-Arabar minnkuðu muninn í 2:1 á 79. mínútu leiksins.

Í uppbótartíma innsiglaði svo Fjölnismaðurinn Ægir Jarl Jónasson sigur íslenska liðsins, sem lék tvo leiki gegn Georgíumönnum í Tblisi í síðustu viku. Íslendingar töpuðu fyrri leiknum, 3:1, en 4:4 jafntefli varð í síðari leiknum.

Leikirnir voru liður í undirbúningi fyrir undankeppni EM en fyrsti leikur liðsins verður á heimavelli gegn Albaníu 4. september.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert