Vonast til að sjá topp frammistöðu

Freyr Alexandersson.
Freyr Alexandersson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Freyr Alexandersson þjálfari kvennalandsliðsins í knattspyrnu vonast eftir góðri frammistöðu í leikjunum á móti Slóvakíu og Hollandi í næsta mánuði og að þeir verði gott veganesti í aðdraganda Evrópumótsins sem fram fer í Hollandi í sumar.

Freyr tilkynnti 23 manna landsliðshóp í dag fyrir leikina á móti Slóvökum og Hollendingum sem hann ætlar að nota til að skerpa á liðinu fyrir stórmótið í sumar. Töluvert hefur verið um skakkaföll í landsliðshópnum vegna meiðsla en Hólmfríður Magnúsdóttir, Dagný Brynjarsdóttir, Sandra María Jessen, Thelma Björk Einarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir eru allar frá vegna meiðsla. Ljóst er að Dóra María verður ekki með á EM en óvissa ríkir með hina. Þá er markadrottningin Harpa Þorsteinsdóttir úr leik sem stendur en hún eignaðist sitt annað barn í síðustu viku.

„Við eigum bara eftir að spila fjóra leiki fram að Evrópumótinu og tímaramminn þrengdist aðeins við þær breytingar sem við þurftum að gera í kjölfar meiðslanna. Við nýttum verkefnið úti í Portúgal í mjög vel og við eigum að vera komin lengra með þá leikmenn sem eru að taka meiri ábyrgð núna. Ég vonast til að sjá topp frammistöðu í þessum leikjum á móti Slóvakíu og Hollandi þannig að getum farið út úr aprílverkefninu og hugsað að ef þeir leikmenn sem hafa verið í lykilhlutverkum og eru meiddir koma ekki til baka þá erum við samt með lið til að berjast um að komast upp úr riðlinum á EM í sumar,“ sagði Freyr við mbl.is eftir að hann tilkynnti landsliðshópinn.

Agla María getur brotið upp leikinn og Ingibjörg sterk á boltann og er með frábæra sendingafærni

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í dag valdi Freyr tvo nýliða í hópinn, Öglu Maríu Albertsdóttur úr Stjörnunni og Ingibjörgu Sigurðardóttur úr Breiðabliki.

„Þær hafa báðar sýnt mér að þeir eiga skilið að verða valdar í hópinn. Agla María hefur þá eiginlega að geta brotið upp leikinn og við eigum ekki marga leikmenn með þá hæfileika. Hún er ung og óreynd og hefur bara spilað leiki með U19 ára landsliðinu. Hún stóð sig gríðarlega vel með Stjörnunni í fyrra og ég held að hún sé tilbúin að taka næsta skref. Ég hef hrifist af hennar frammistöðu og ég þekki til hennar eftir að hafa unnið með henni í yngri landsliðunum. Ég er mjög spenntur að sjá hvað hún gerir fyrir hópinn.

Ingibjörg er miðvörður sem ég get kannski líkt við Glódísi Perlu. Hún er mjög sterk á boltann, er með frábæra sendingafærni og hefur spilað mjög vel í vetur. Það heillaði mig líka að sjá hana stíga upp í stórum leikjum í haust. Hún var til að mynda einn besti leikmaðurinn í bikarúrslitaleiknum og svo var hún frábær í Meistaradeildarleikjunum á móti Rosengård. Hún hefur staðið sig mjög vel í vetur og mig langar að skoða hana í þessum hópi og sjá hversu langt hún er komin,“ sagði Freyr.

Fimm leik­menn sem léku með landsliðinu í Al­gar­ve-bik­arn­um fyrr í þess­um mánuði eru ekki í hópn­um en það eru þær Dóra María Lár­us­dótt­ir og Sandra María Jessen, sem báðar meidd­ust illa í Portúgal, Dagný Brynj­ars­dótt­ir, Thelma Björk Ein­ars­dótt­ir og Arna Sif Ásgríms­dótt­ir.

Dagný Brynjarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir glíma báðar við meiðsli.
Dagný Brynjarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir glíma báðar við meiðsli. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Dagný er ekki byrjuð að spila en er í bataferli. Hún er samt sem áður töluvert frá því að geta spilað með landsliðinu. Markmið okkar og Portland Thorns er að hún geti tekið þátt í leikjum í lok apríl eða byrjun maí og verði í toppstandi fyrir landsliðsverkefni í byrjun júní. Thelma Björk er búin að vera meira og minna meidd eftir Algarve-bikarinn. Hún fékk vökva inn á hnéð og á í basli með það. Hún er góður leikmaður en við verðum að hafa leikmennina heila. Hvað varðar Örnu Sif þá veit ég hvað hún hefur fram að færa og mig langar að prófa annars konar miðvörð sem er Ingibjörg,“ sagði Freyr við mbl.is.

Átti góðan fund með Hörpu

Freyr segist ekki vilja reikna með því að þeir lykilmenn sem eru frá vegna meiðsla verði með liðinu á EM.

„Það getur allt gerst. Ég vona að þeir komi til baka en mér finndist það kærulaust af mér að undirbúa liðið þannig að þeir muni bara koma til baka. Á þessum tímapunkti finnst mér betra að undirbúa mig þannig að ef þeir koma ekki þá veit ég hvernig á að bregðast við. Ef þessir leikmenn verða heilir heilsu og komnir í það stand að geta spilað fyrir íslenska landsliðið þá eru þetta það góðir leikmenn að við munum nota þá. Harpa Þorsteinsdóttir er inni í þessu mengi. Ég ræddi málin við hana á dögunum og það var góður fundur. Ég fékk þau svör frá henni að hún ætlar að halda áfram í fótboltanum og svo verður bara tíminn að leiða það í ljós hvað verður með hana,“ sagði Freyr.

Eftir leikina tvo á móti Slóvakíu og Hollandi leikur íslenska liðið við Íra í Írlandi þann 8. júní og lokaleikurinn fyrir Evrópumótið verður öllum líkindum þann 13. júní á Laugardalsvellinum. Freyr segir að það sé ekki endanlega ljóst hver sá mótherji verður ef að leiknum verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert