Ísland nánast úr leik

U17 ára landsliðið mátti þola tap í dag.
U17 ára landsliðið mátti þola tap í dag. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U17 kvennalandsliðið í knattspyrnu mátti þola 3:0 tap gegn Spánverjum í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Tékklandi í sumar. Tapið þýðir að möguleikar liðsins á að komast á lokamótið eru litlir sem engir. 

Spánverjar eru eitt allra besta lið Evrópu í aldursflokknum, eins og þrír Evróputitlar á síðustu sjö árum gefa til kynna. 

Staðan var markalaus fram að 62. mínútu en þá skoraði Carla Piqueras fyrsta mark leiksins. Tveim mínútum síðar var hún búin að skora aftur og staðan skyndilega orðin 2:0 fyrir Spánverja. 

Patricia Zugasti skoraði svo þriðja markið á 76. mínútu og gulltryggði hún sigur Spánverja. Undankeppninni er skipt í sex riðla og kemst efsta liðið í hverjum riðli á átta liða lokamót, en liðið sem er með bestan árangur í 2. sæti fer einnig á mótið. 

Íslenska liðið þarf að vinna Portúgal í síðasta leiknum, ásamt því að treysta á úrslit úr nokkrum öðrum leikjum, til að eiga möguleika á að komast á lokamótið. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert