Alltaf erfitt að sjá vini sína liggja

Sif Atladóttir
Sif Atladóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sif Atladóttir, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu var vissulega svekkt eftir 4:0 tap gegn Hollendingum í vináttuleik ytra í dag. Hollenska liðið var sterkari aðilinn í dag og var lítið hægt að kvarta yfir úrslitunum. 

„Þetta voru ódýr mörk að okkar mati en kannski er 4:0 sanngjarnt miðað við leikinn. Mér fannst það ganga allt í lagi að takast á við hollensku sóknina, en við hleypum þeim svolítið fyrir aftan okkur. Við náðum samt sem áður að halda í við þær og loka á þær á mikilvægum augnablikum. Þetta er góður lærdómur fyrir okkur. Það er ýmislegt sem við fáum að skoða og sjá."

„Það er ágætt að þetta gerðist núna, þá vitum við hvað við þurfum að gera og við þurfum að bregðast við þessu fyrir næstu leiki."

Elísa Viðarsdóttir meiddist þegar leikurinn var nýhafinn. Sif segir það hafa haft áhrif á íslenska liðið. 

„Það hefur alltaf áhrif á mann þegar maður sér vin sinn slasast, það er mikil hræðsla í manni. Við reyndum að hrista það af okkur og spila okkar leik. Auðvitað er maður alltaf með hugann hjá vinunum. Við vitum ekki neitt ennþá, en við vonum það besta. Það er erfitt að sjá vini sína liggja."

Sif sá ýmislegt jákvætt í leik Íslands, þrátt fyrir úrslitin. 

„Við héldum áfram þó við vorum að fá mörkin á okkur. Við fengum fullt af föstum leikatriðum og innköstum. Uppspilið gekk ágætlega og það er fullt af jákvæðum hlutum í þessum leik. Við náum blússandi sókn í upphafi leiks og fengum fullt af föstum leikatriðum sem við potum inn næst."

Leikurinn fór fram á Vijver­berg leik­vang­in­um í Doet­inchem en þar leik­ur Ísland gegn Sviss í loka­keppni Evr­ópu­móts­ins í Hollandi í sum­ar. íslenska liðið dvaldi á sama hóteli og það mun gera í sumar. 

„Það var ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að fá að sjá hvernig aðstæðurnar eru og við hverju við eigum að búast. Það er frábært að fá leik gegn Hollandi á þeim heimavelli og fá smá sýnishorn af sumrinu. Auðvitað verða fleiri bláar treyjur í stúkunni í sumar, það er mjög spennandi. Þetta er klárlega gott veganesti fyrir okkur," sagði miðvörðurinn sterki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert