„Þetta er og verður mjög líkt EM“

Fanndís Friðriksdóttir
Fanndís Friðriksdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu tekur generalprufu fyrir Evrópumótið í sumar þegar liðið mætir EM-gestgjöfunum, Hollandi, í Doetinchem kl. 17 að íslenskum tíma í dag. Í þessum 56.000 manna bæ leikur Ísland einmitt annan leik sinn á EM í sumar, gegn Sviss.

Íslensku stelpurnar komu til Hollands á föstudag og dvöldu fyrstu dagana í bænum Ermelo, þar sem bækistöðvar liðsins verða á EM: „Þetta lítur allt mjög vel út,“ segir Fanndís Friðriksdóttir.

„Við erum núna komnar á eitt af „transfer“-hótelunum, sem við gistum á daginn fyrir leik, og það lítur líka mjög vel út. Það er mjög gott að hafa fengið að kynnast öllum aðstæðum hérna. Það verða margir á vellinum og maður getur núna vel ímyndað sér nákvæmlega hvernig þetta verður í sumar. Þetta er og verður mjög líkt EM,“ segir Fanndís glaðbeitt.

Hefur gengið vel gegn Hollandi

Ísland hefur átt góðu gengi að fagna gegn Hollandi í gegnum árin og komst í 8 liða úrslit EM 2013 með því að vinna Holland, 1:0. Ísland hefur unnið sex af átta viðureignum sínum við Holland og aðeins tapað einni. Hollenska liðið hefur hins vegar verið á mikilli uppleið síðustu ár og er í 12. sæti heimslistans, en Ísland í 18. sæti.

Ísland og Holland mættust síðast fyrir tveimur árum og þá vann Ísland 2:1-sigur eftir að hafa lent undir. Sherida Spitse skoraði mark Hollands en Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir jafnaði metin og Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.

Ísland mætir Frakklandi í fyrsta leik sínum á EM hinn 18. júlí. Frakkar mættu einmitt Hollendingum í vináttulandsleik á föstudag og unnu 2:1-sigur. Lieke Martens, leikmaður Rosengård í Svíþjóð skoraði mark Hollands. Ísland vann hins vegar Slóvakíu, 2:0.

Sjá allt viðtalið við Fanndísi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert