Auðvitað er EM það fyrsta sem ég hugsa

Elísa Viðarsdóttir.
Elísa Viðarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elísa Viðarsdóttir, landsliðskona í knattspyrnu, meiddist í upphafi leiks Íslands og Hollands sem fram fór ytra í vikunni. Leikurinn var vart byrjaður þegar Elísa fékk högg á hnéð og lá hún sárþjáð eftir. 

Mbl.is sló á þráðinn til Elísu í dag, en hún fer í myndatöku eftir helgi. 

„Ég fer í myndatöku eftir helgi og þá fæ ég að vita meira. Ég bíð núna og vona það besta. Hnén á mér hafa yfirleitt verið í lagi, en undanfarið byrjaði ég að finna aðeins fyrir. Ég sneri svo eitthvað upp á hnéð og þetta var rosalega vont.“

Séu meiðslin alvarleg gæti Elísa þurft að bíta í það súra epli að missa af EM í Hollandi í sumar. 

„Auðvitað er EM það fyrsta sem maður hugsar þegar maður lendir í svona, en maður má ekki hugsa of langt. Ég veit svo lítið um þessi meiðsli eins og er. Ég vona að þetta sé liðþófinn sem er skaddaður, frekar en krossböndin,“ sagði Elísa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert