Erum að reyna að skapa sigurhefð

Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, lyftir bikarnum í leikslok.
Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, lyftir bikarnum í leikslok. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er það sem þetta lið hefur þurft, það er að skapa sigurhugarfar í Val aftur eftir titlaleysi á Hlíðarenda undanfarin ár. Við erum að reyna að skapa sigurhefð á nýjan leik og þetta er hluti af þeirri vegferð,“ sagði Margrét Lára í samtali við mbl.is, en hún skoraði sigurmark Vals í 2:1-sigri liðsins gegn Breiðabliki í úrslitaleik Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í dag.

Valur frumsýndi í gær mexíkósku landsliðsmennina Arionu Calderon sem lék inni á miðsvæðinu og Anisu Guajardo sem lék á hægri vængnum. Margrét Lára var ánægð með Ariönu og Anisu, auk þess sem hún bar lof á hina ungu og efnilegu Stefaníu Ragnarsdóttur sem gekk til liðs við Val frá Þrótti Reykavík fyrr í þessum mánuði.

„Þetta eru góðir leikmenn sem koma vel inn í liðið. Þær eru bara nýkomnar til okkar og það sést strax hversu miklum gæðum þær hafa yfir að ráða. Síðan fannst mér Stefanía [Ragnarsdóttir] spila feykilega vel inni á miðsvæðinu. Við söknum auðvitað þeirra sterku leikmanna sem hafa meiðst í vetur og reynsluboltanna sem hættu. Við erum hins vegar að ná að pússla saman liði sem ætti að geta gert góða hluti í sumar,“ sagði Margrét Lára um nýju leikmennina í Valsliðinu.

Nú eru eingöngu tíu dagar þar til keppni hefst í Pepsi-deild kvenna, en Val mætir Þór/KA á Akureyri í fyrstu umferð deildarinnar fimmtudaginn 27. apríl. Margrét Lára er spennt fyrir komandi átökum og tekur Valsliðið til alls líklegt í sumar.

„Við vorum vel skipulagðar í dag og flottar fram á við á köflum. Við sýndum það í fyrri hálfleik að við erum til alls líklegar í sumar. Þetta verður hins vegar gríðarlega jöfn og erfið deild þar sem það þarf að hafa mikið fyrir hverju stigi. Sem dæmi fer Stjarnan ekki áfram í Lengjubikarnum þrátt fyrir að vera með gott lið. Við tökum bara einn leik fyrir í einu og reynum að skapa siguranda í liðinu,“ sagði Margrét Lára um framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert