Valur deildabikarmeistari í fimmta sinn

Valur er Lengjubikarmeistari í knattspyrnu kvenna.
Valur er Lengjubikarmeistari í knattspyrnu kvenna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur varð deildabikarmeistari kvenna í fimmta skipti í sögu félagsins eftir 2:1-sigur liðsins gegn Breiðablik í úrslitaleik í Egilshöll í Grafarvogi í dag.

Það voru Stefanía Ragnarsdóttir sem gekk til liðs við Val frá Þrótti Reykjavík fyrr í mánuðinum og Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði Vals, sem skoruðu mörk liðsins í leiknum. Fanndís Friðriksdóttir skoraði mark Breiðabliks.

Samvinna Margrétar Láru Viðarsdóttur og Elínar Mettu Jensen var góð í leiknum og þær eiga eftir að valda usla í vörnum andstæðinga Vals í sumar. Margrét var lunkinn við að finna Elínu Mettu í góðum hlaupum hennar og Elín Metta fékk nokkur fín færi þar sem Sonný Lára Þráinsdóttir, markvörður Breiðabliks, sá við henni.

Valur var heilt yfir sterkari aðilinn í leiknum og úrslitin því sanngjörn. Tvær mexíkóskar landsliðskonur léku sinn fyrsta leik fyrir Val í dag, en Ariana Calderon átti góðan leik inni á miðsvæðinu og Anisa Guajardo var spræk á hægri vængnum.

Þá lék hin unga og efnilega Stefanía Ragnarsdóttir vel inni á miðsvæðinu hjá Val, en þrátt fyrir ungan aldur lék hún af mikilli yfirvegun og skilaði boltanum vel frá sér. Vörn Vals var þétt lungann úr leiknum og hélt öflugri sóknarlínu Breiðabliks í skefjum lengstum í leiknum.

Breiðablik hefur oft spilað betur en þær gerðu í dag og svo virðist sem liðið sé enn að jafna sig á því að leika án Hallberu Gísladóttur. Fanndís Friðriksdóttir komst lítið í boltann, en sýndi þó snilli sína þegar hún fann sér smá pláss og hamraði boltanum í netið.

Pepsi-deild kvenna hefst eftir tíu daga, en Valur sækir Þór/KA heim og Breiðablik fær FH í heimsókn á Kópavogsvöll í fyrstu umferð fimmtudaginn 27. apríl.  

Valur 2:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Elín Metta Jensen (Valur) á skot framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert